145. löggjafarþing — 130. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[21:06]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta mál veldur mér svolitlu hugarangri, sér í lagi þar sem hérna er ekki um almennar verkfallsaðgerðir að ræða heldur einungis yfirvinnubann. Hérna erum við að tala um að flugumferðarstjórar eru ekki að vinna þá 50 tíma yfirvinnu sem þeir þurfa að vinna í hverjum einasta mánuði til að sjá til þess að flugumferðarstjórn í kringum Ísland og í fluglögsögu Íslands gangi þrautalaust fyrir sig. Hérna er einungis um tafir að ræða, einfaldlega af því að stétt flugumferðarstjóra hefur ekki verið nægilega mönnuð. Það er nokkuð sem er á herðum Isavia að sjá um.

Það kom fram á nefndarfundi hjá okkur að um 15 manns sjái um 18 stöðugildi og að á sama tíma, undanfarin þrjú til fimm ár, hvernig sem maður lítur á það, hafi flugumferð um Ísland aukist um 20%. Þetta er gífurlegt álag. Við erum að tala um stétt sem við viljum að sé alveg í toppstandi, bæði andlega og líkamlega. Yfirvinnutímar á mánuði hafa farið úr 24 í 50 á nokkrum árum þannig að það er ekki nema von að hérna sé beðið um smákjarabót. Það að flugumferðarstjórar séu í yfirvinnubanni er bara þeirra leið til að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem þessi stétt er komin í. Þetta er fólkið sem leyfir okkur að lenda á flugvöllum. Við viljum helst geta gert það. Ekki viljum við hrapa í sjóinn eða eitthvað álíka.

Ef við höldum ekki almennilega í við þá þróun sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að flugumferðarstjórn er mikil hætta á atgervisflótta. Flugumferðarstjórn er einstaklega alþjóðlegt starf sem menn geta unnið hvar sem er í heiminum. Hérna hefur komið fram að mikill fjöldi íslenskra flugumferðarstjóra er einfaldlega að vinna erlendis og þeir eru að sækjast eftir því. Þegar mikil eftirspurn er í heiminum almennt eftir flugumferðarstjórum þurfum við að tryggja þeim betri kjör. Þannig er það bara.

Það er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin og verkfallsaðgerðir séu virtar. Það er lítils virði að hafa verkfallsaðgerðir og rétt til þess að vera með verkalýðshreyfingar ef ríkisstjórnin kemur síðan og setur lög hægri vinstri eins og enginn sé morgundagurinn. Við þurfum að virða grundvallarborgararéttindi fólks til að stunda verkfallsaðgerðir til að ná fram bættum kjörum, annars getum við alveg eins sleppt þessu. Það er nokkuð sem við einfaldlega viljum ekki.