149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég ekki stjórnarliði, síður en svo, en mér fannst samt rosalega auðvelt að finna þessa fyrirvara í þingskjölum, fara bara inn í hliðarherbergið og draga upp eitt skjal og opna, það var þar beint fyrir framan mann. Á sama tíma voru þingmenn Miðflokksins að gala að þeir fyndu þessa fyrirvara hvergi. Þeir voru bara hérna í hliðarsalnum og á netinu, alls staðar þar sem fólk gat opnað skjalið og lesið. Mjög einfalt.

Mér finnst mjög mikilvægt að hafa í huga þegar talað er um fyrirvarana, á hverju þeir fyrirvarar eru. Það er 7., 8. og 9. gr. í tilskipuninni 713, frekar en 714, sem fjalla um valdheimildir Eftirlitsstofnunar ESA til að taka bindandi ákvarðanir. Þar er upptalning á því hvenær þeir mega taka bindandi ákvarðanir. Það er afmarkað, að það er bara um ákvarðanir sem varða tengingar á milli landa, þ.e. sæstrenginn, ekkert um innanlandsmarkaðinn eða neitt. Á meðan enginn sæstrengur er þá er ekkert sem ESA getur gert til að taka bindandi ákvarðanir um neitt hérna hvað varðar raforku sem fer frá eða til Íslands. Ekki neitt. Þar af leiðandi eru þessir fyrirvarar sem eru settir fram tilgangslausir fyrr en kominn er sæstrengur. Þannig eru þeir til heimabrúks. Það er ekkert flóknara en það.

Mér finnst því voðalega skrýtið að varpa hérna upp einhverjum þjóðarétti fram og til baka því að það er líka alveg skýrt að það er Alþingi, þegar allt kemur til alls, sem hefur allt um það að segja hvort lagður sé sæstrengur eða ekki.

En fyrirvararnir finnast einfaldlega í þingskjölum og hafa fundist þar síðan málið var lagt fram.