149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er farin að halda að hann hafi bara alls ekkert hlustað á mig, ég verð að segja það. Það var enginn hræðsluáróður hér á ferð, ekki fyrir fimm aura. Tal um að neyða og annað slíkt — var ég einhvern tímann að nefna það að við værum skuldbundin til að leggja sæstreng? Var ég að nefna það? Ég veit betur. Ég veit að við erum fullvalda ríki, hv. þingmaður, en það er minna gert úr því að spá í það hvort við myndum um leið baka okkur skaðabótaskyldu. Það er eitthvað sem enginn veit.

Talandi um græna orku — ég trúi varla að hv. þingmaður hafi viljað tala um græna orku í ljósi þess hvert hans ágæti þingflokkur hefur farið með græna orku. Ég nefndi 66.000 tonn af kolum á ári í bruna í álverið á Bakka. Ég veit ekki betur en að ég hafi aðallega verið að tala um EES-samninginn með tilliti til þess að við værum jafngild þar og hver annar sem undir samninginn heyrir. Og að við ættum okkar samningsstöðu þar eins og hver annar. Það sem ég er að gagnrýna er að við höfum ekki nýtt hana. Við höfum ekki nýtt hana í okkar þágu.

Ég vil benda á að ég tel enn að við höfum sérstöðu, ekki bara markaðslega séð heldur sérstöðu gagnvart raforkunni okkar, sérstöðu gagnvart landfræðilegri legu og við eigum möguleika á því að gera mun betur þegar kemur að því að semja fyrir okkar hönd sjálf við EES.