139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

almannatryggingar.

797. mál
[13:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér inn í þessa umræðu, örstutt. Ég á ekki sæti í hv. félagsmálanefnd, ég hef því ekki verið við umræður í nefndinni um málið. Mig langar aðeins að nefna nokkur atriði, helst hvað varðar kostnaðinn fyrir ríkissjóð. Ég vil taka það sérstaklega fram að ég styð að sjálfsögðu meginmarkmið frumvarpsins enda greiddum við sjálfstæðismenn fyrir því að það kæmi til afgreiðslu hratt og örugglega í þinginu. Ég tel sjálfsagt að lífeyrisþegar og þeir sem eru án atvinnu njóti hliðstæðra kjarabóta og þeirra sem samið var um í kjarasamningum. Ég vil gera þann fyrirvara á.

Miðað við gögn sem ég hef séð og var dreift í nefndinni er ég með spurningu sem formaður nefndarinnar getur kannski svarað í lok umræðunnar, ég er ekki endilega að fara fram á að því verði svarað akkúrat á þessu augnabliki. Talað er um í nefndarálitinu að breytingin nemi 4,4 milljörðum kr. á yfirstandandi ári miðað við að hækkunin komi til framkvæmda í júní. Er það ekki rétt skilið hjá mér að í kostnaðaráætluninni sem lögð var til grundvallar í nefndinni á það aðeins við um almannatryggingahlutann, ekki kostnaðinn við atvinnuleysistryggingar, og að það vanti þarna upp á tæpa 2,4 milljarða, þannig að útgjöldin miðað við hálft ár verði tæpir 6,8 milljarðar en ekki 4,4? Ég vildi gjarnan fá þetta skýrt frá formanni nefndarinnar.

Ég vil einnig spyrjast fyrir um annað. Það segir hér að „skilyrði hækkunar samkvæmt ákvæðinu er að verulegar breytingar verði á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga sem leiði til hækkunar.“ Hvert er það? Hvað þýðir „verulegar breytingar“, hverjar eru forsendur hækkananna og er búið að útfæra það?

Svo vekur það að sjálfsögðu furðu, það er kannski skiljanlegt þegar um er að ræða þessi útgjöld sem leiða af kjarasamningum að þau séu gerð með fyrirvara um samþykki Alþingis. Það er alþekkt og það er eitthvað sem fjárlaganefnd, veit ég, bæði meiri hluti og minni hluti, er óþreytt við að gagnrýna, þ.e. það verklag, við höfum rætt það oft og ítrekað í þinginu. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal mun ræða það á eftir og er óþreytandi við að benda á það að oftar þyrfti að koma fram með fjáraukalög vegna þess að það eru að verða mjög miklar upphæðir sem við erum að afgreiða fram hjá fjárlögunum.

Mig langar nefna nokkur atriði. Við ræddum um vanda Íbúðalánasjóðs ekki alls fyrir löngu og þar var hæstv. fjármálaráðherra veitt um 30 milljarða heimild. Byggðastofnun fékk ekki alls fyrir löngu 3–4 milljarða kr. heimild, ef mig misminnir ekki. Við erum með fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins um hækkun iðgjalda LSR sem felur í sér kostnað sem við vitum ekki hver er og við erum með önnur atriði sem varða kjarasamninga sem draga úr tekjum ríkissjóðs sem við ræddum í gær í bandormi fjármálaráðherra vegna kjarasamninganna og það voru 5–6 milljarðar. Þetta er því farið að hlaupa á tugum milljarða sem þarna er verið að afgreiða án þess að búið sé að fá formlega heimild í fjárlögum ríkisins. Það vekur hjá manni áhyggjur að yfirsýnina skorti.

Á sama tíma kemur hæstv. fjármálaráðherra og gumar af því að verið sé að ná niður halla ríkissjóðs og talar um að hann sé tæpir 40 milljarðar. En þetta er allt út fyrir sviga. Það koma tekjur á móti, auknar skatttekjur, og tekjur koma af kjarasamningunum þannig að það fer allt af stað og ég hef alveg skilning á því. En ég vildi nefna þetta vegna þess að mér finnst þessi þróun vera orðin dálítið hröð á allra síðustu vikum.

Við vitum hvernig málið kom inn í þingið, nefndin flutti það og svo var kallað eftir kostnaðarmati sem ég tel alveg sjálfsagt og vil hrósa hv. félagsmálanefnd, sem mér skilst að hafi staðið einhuga að baki þeirri kröfu að óska eftir nánari útskýringu á kostnaði vegna þess að þetta er annars opinn tékki.

Þess vegna vil ég nefna þetta og ég trúi ekki öðru en að hæstv. velferðarráðherra hafi skilning á þessu þar sem hann er fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og ætti að hafa skilning á þessu. Þessu vildi ég koma inn í umræðuna og nefna og vænti þess að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir leitist við að svara því sem ég nefndi varðandi kostnaðinn.