136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:52]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er átakanlegt að horfa upp á hv. þm. Jón Magnússon reyna að bjarga sér á hundasundi í land frá orðum sínum hér áðan. Ég verð að segja eins og er að það fer sjálfstæðismönnum bara betur að nota orðið „bull“ um það sem við segjum hér, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði — sem frægt er orðið — í útvarpsviðtali um ofurstyrkina og greiðslurnar til Sjálfstæðisflokksins, 60 milljónirnar, þetta væri bara bull, gamalt bull.

Hér fellur hv. þm. Jón Magnússon beina leið ofan í gryfju kalda stríðsins og spólar þar eins og sjóðvitlaus maður á biluðum bíl. (Gripið fram í.) Ég bara spyr: Hvað hefur maðurinn lært, hv. þingmaður, þann tíma sem hann hefur verið í Sjálfstæðisflokknum núna að nýju? Það er einhver lexía sem ég hélt að væri dauð og grafin en skýtur þó alltaf öðru hvoru upp kollinum hér í þingsölum, það er kaldastríðsgrýlan.

Ég átti von á því að geta farið hér í málefnalegar umræður við hv. þingmann. Mig langaði til að vekja athygli hans á frétt í Fréttablaðinu í dag þar sem skýrt er frá því að tekist hafi samkomulag um að fresta hækkun á launum sérfræðilækna, einingaverði sem átti að hækka um 9%, úr 266 kr. í 290 kr. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur náð þeim árangri að fresta þessari hækkun og það er vel að mínu mati. (Gripið fram í.) Það er einmitt í þeim anda sem varaformaður okkar, hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, talaði í gær. Það á að jafna kjörin, þannig getum við varið störfin.