138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

launamál seðlabankastjóra.

[10:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það má öllum ljóst vera að hæstv. forsætisráðherra hefur á síðustu vikum verið í standandi vandræðum vegna launamála seðlabankastjóra, og er enn þá. Fyrir liggur að í stjórnkerfinu, jafnt í forsætisráðuneytinu, bankaráði Seðlabankans og innan efnahags- og skattanefndar Alþingis, hefur maður gengið undir manns hönd til að tryggja seðlabankastjóranum launahækkun upp á 400.000 kr. á mánuði. Þetta mál lyktar af pólitískri spillingu sem hæstv. forsætisráðherra ber alla ábyrgð á.

Því miður blasir við að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið þinginu útskýringar sem hvorki standast né eru sannleikanum samkvæmar. Hún hefur þverneitað allri aðkomu sinni að málinu og forsætisráðuneytisins, og gekk reyndar svo langt í þeim efnum þann 6. maí sl. að segjast hafa haft samráð við starfsfólk í forsætisráðuneytinu sem lýsti því að enginn kannaðist við að hafa komið að launahækkun seðlabankastjórans. Þeir tölvupóstar sem nú hafa verið lagðir fram sanna að yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra á þingi voru ekki sannleikanum samkvæmar. Þar við bætist að hv. þm. Helgi Hjörvar staðfestir á forsíðu Morgunblaðsins í morgun að breytingar á lögum um Seðlabankann sem áttu að tryggja launahækkun bankastjórans gætu gengið í gegn voru pantaðar úr forsætisráðuneytinu.

Nú tekur þetta mál á sig enn þá furðulegri og vafasamari mynd. Nú er nokkuð um liðið síðan úrskurður kjararáðs um launakjör seðlabankastjóra tók gildi og ég hef fyrir því traustar heimildir að fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráði Seðlabankans hafi ákveðið að hafa ákvörðun kjararáðs að engu, að seðlabankastjóra sé greidd launahækkunin upp á 400.000 kr. á mánuði þrátt fyrir úrskurð kjararáðs og látið eins og tillaga formanns bankaráðsins, Láru V. Júlíusdóttur, hafi að höfðu samráði við forsætisráðuneytið verið samþykkt í bankaráðinu. Það er ljóst að með þessari ákvörðun brjóta fulltrúar stjórnarflokkanna í bankaráðinu gegn úrskurði kjararáðs. Það er jafnljóst að með því brjóta embættismenn sem hæstv. forsætisráðherra ber pólitíska ábyrgð á (Forseti hringir.) gegn hennar eigin launastefnu. Hæstv. forsætisráðherra verður að upplýsa þingið um hvort þessi makalausa ákvörðun meiri hluta bankaráðsins hafi verið tekin með hennar vilja og vitneskju, (Forseti hringir.) og ráðuneytisins, og ef svo er verður hæstv. forsætisráðherra að svara því hvernig hún hyggist bregðast við.