138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

uppgjörsmál gamla Landsbankans.

[10:59]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara þessu. Sem betur er er svarið einfalt: Þessi gjörningur, þ.e. skuldabréfið sem gefið var út og þær eignir sem fóru inn í nýja Landsbankann frá þeim gamla á móti, breytir engu um möguleika Nýja Landsbankans á því að standa við innstæður sínar. Það eru ákveðnar eignir sem eru teknar til hliðar og það er ákveðin skuld á móti. Þetta hefur því engin áhrif á aðra þætti í rekstri bankans, þar á meðal þær eignir sem standa á móti innstæðum. Þetta er einfaldlega tekið algjörlega út fyrir sviga og var mjög eðlilegt að gera það vegna þeirrar óvissu sem var um endurheimt þessara eigna. Það var sá hnútur sem höggvið var á með því að gera þetta svona. Ef við hefðum farið þá leið að meta þessar eignir til fulls er alveg öruggt að tekist hefði verið á um það fyrir dómstólum hvort matið væri rétt. Það hefði verið mjög kostnaðarsamt og tafsamt og valdið óvissu um efnahagsreikning Nýja Landsbankans. Komist var hjá því með þessum hætti.

Hv. þingmaðurinn vék einnig að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að allar innstæður séu tryggar. Sú yfirlýsing stendur. Það hefur verið gefið út að hún mun standa enn um sinn. Henni verður ekki haggað þótt frumvarp til laga um innstæðutryggingar verði samþykkt, sem vonandi verður gert fljótlega. Hins vegar liggur fyrir að þetta fyrirkomulag er ekki til frambúðar. Það var sérstök lausn sem kynnt var við sérstakar aðstæður. Það verður undið ofan af henni með því að draga yfirlýsinguna til baka í fyllingu tímans þegar forsendur til þess hafa skapast. Þær forsendur hafa ekki skapast enn og munu sjálfsagt ekki skapast á næstu mánuðum. Við það vil ég bæta því að það verður að sjálfsögðu gert með ákveðnum fyrirvara svo það mun ekki koma innstæðueigendum á óvart þegar yfirlýsingin rennur út. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég benda á að sama fyrirkomulag er nú í nánast öllum Vestur-Evrópuríkjum.