138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

fundarstjórn.

[11:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa vakið athygli á því hversu mörg mál það eru sem liggja fyrir þinginu og hversu óljóst það virðist vera hvernig skipulagi þingsins verður háttað þá daga sem eftir eru af þingstörfum. Við höfum margoft talað um það hér á þessu þingi, oftar en maður nær að telja, að bæta vinnulag þingsins. Nú kemur hæstv. forsætisráðherra og tilkynnir okkur að það séu eingöngu 60 mál sem eigi að afgreiðast hér á þinginu. Það er alveg fullljóst, frú forseti, að þetta er eitthvað sem ekki liggur ljóst fyrir. Það er því um að gera að reyna að kalla saman þann fund sem um hefur verið rætt hið fyrsta þannig að menn átti sig á því hvaða mál það eru sem eiga að fara í gegn og menn geti farið að skipuleggja sig eitthvað vegna þess að verklagið sem tíðkast hérna á þinginu er ekki til fyrirmyndar. Við hljótum að beita okkur fyrir því öll saman að þetta verði lagað.