138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er kannski frekar áherslumunur en að við séum á öndverðum meiði hvað varðar afgreiðslu málsins. Eftir yfirferð nefndarinnar komu fram mjög ólíkar skoðanir á því hvort fella ætti út ákvæðið um innra skipulag heilbrigðisstofnana, um deildarstjóra hjúkrunar og yfirlækna sérdeilda. Það voru mjög gild rök fyrir því að núgildandi lög hefðu ekki haft tefjandi eða truflandi áhrif á allar þær skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar á heilbrigðisstofnunum Þá má sérstaklega líta til stærri stofnananna sem hafa gert umtalsverðar skipulagsbreytingar. Þetta er líka spurning um form og áhugi heilbrigðisráðuneytisins var ekki síður sá að hafa ekki bundið í lögum hvernig innra skipurit skuli vera. Það hefur sýnt sig að þótt þessi atriði séu bundin í lögum þá hefur verið hægt að gera allar þessar skipulagsbreytingar.

Talið hefur verið að ekki væri hægt að stækka einingar hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu því lögum samkvæmt þyrftu að vera yfirlæknir og hjúkrunarfræðingur á hverri starfsstöð. Með því að breyta orðalaginu þannig að það skuli vera yfirlæknir og yfirhjúkrunarfræðingur yfir heilsugæslu er hægt að breyta og stækka starfssvið heilsugæslunnar þannig að yfir stærri einingum verði yfirlæknir og yfirhjúkrunarfræðingur.