150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[19:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið en verð þó að upplýsa hann um það að fjölskyldur á Íslandi sem þurfa að framfleyta sér og börnum sínum kaupa ekki í matinn og borga ekki reikningana með 11 ára gömlum tölum. Það er ekki hægt að standa hér í dag þegar rúmlega 20.000 manns eru á atvinnuleysisskrá og fer fjölgandi, þegar 12.000 manns voru í þessum mánuði með grunnatvinnuleysisbætur, og stæra sig af því að verið sé að leggja meira í málaflokkinn en fyrir 11 árum síðan. Það er ekki heiðarleg framsetning, hæstv. ráðherra. Í dag eru 12.000 manns að fá 240.000 kr. á mánuði. Við þurfum að grípa þær fjölskyldur, hæstv. ráðherra. Þarna eru börnin sem hafa ekki efni á því að kaupa sér úlpu til að mæta í í skólann.

Fyrst við erum farin að tala um tíma og að verið sé að hugsa málið þá langar mig líka að benda á að það er alveg ótrúleg skammsýni af hálfu ríkisstjórnarinnar að framlengja hlutabótaleiðina um tvo mánuði, þegar það liggur algerlega ljóst fyrir að það verður ekki allt komið í samt lag eftir tvo mánuði, en fara ekki leiðina sem fjöldamörg nágrannaríki okkar fara, að hafa leiðina í 12 eða 18 mánuði, til þess að tryggja að það sé alla vega eitthvert ráðningarsamband. Tveir mánuðir. Það er algjörlega fyrirséð að það mun ekki duga í því ástandi sem nú er. Við þurfum að reyna að koma í veg fyrir uppsagnir með því að gefa fólki tækifæri til að vera í hlutastörfum. (Forseti hringir.) Hlutabótaleiðin frá hæstv. ráðherra var góð hugmynd. Hún var góð hugmynd til að reyna að tryggja ráðningarsamband en tveir mánuðir í viðbót eru bara ekki nóg.