131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

57. mál
[14:24]

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í gær bárust fréttir af því að samkvæmt skýrslu Veraldarbankans búa Íslendingar við mestan efnahagslegan stöðugleika og besta réttarkerfi í heimi. Skýrslan leiðir líka í ljós að einungis tvö ríki heims af 219 standa okkur Íslendingum framar í baráttunni gegn spillingu.

Þessar fréttir eru afar ánægjulegar en hins vegar hafa hér á Íslandi fulltrúar ákveðinna stjórnmálaflokka haldið því fram um nokkurt skeið að það kerfi sem við búum við varðandi fjármögnun og fjármál stjórnmálaflokkanna ali á spillingu í stjórnmálum. Ég verð að segja að oft mætti af þessum málflutningi ætla að við værum að taka umræðuna í vanþróuðu og spilltu þróunarríki en ekki framúrstefnulegu vestrænu menningarsamfélagi. Sem betur fer sýnir þessi skýrsla Veraldarbankans annan raunveruleika.

Á Íslandi gilda allar sömu reglur um fjárhagsleg málefni stjórnmálaflokka og um önnur frjáls félagasamtök sem hafa einhvers konar fjárreiður með höndum. Þær reglur sem gilda um stjórnmálaflokkana eru hvorki vægari né strangari en þessar reglur. Ég get tekið sem dæmi íþróttafélög, góðgerðasamtök og kirkjufélög. Menn hafa komið sér saman um að svona eigi þetta að vera, einróma niðurstaða um að ekki sé ástæða til að breyta þessum reglum. Síðan eru alltaf einhverjir sem hafa áhyggjur af því að setja þurfi reglur og opna bókhaldið — og þá hlýt ég að spyrja: Ef menn hafa svona miklar áhyggjur og meina það sem þeir segja, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, af hverju opna þessir stjórnmálaflokkar ekki bókhald sitt? Af hverju heyrist alltaf rétt fyrir kosningar að bókhaldið verði opnað, og svo eftir kosningar gerist ekki neitt? (Gripið fram í.) Ég minni á að Margrét Frímannsdóttir sagði fyrir kosningarnar 1999 að allt yrði birt. Svo hefur ekkert gerst. (Forseti hringir.) Þetta er alltaf sama gamla lumman, og einhverjar platreglur frá Samfylkingunni um að allt sé birt umfram 500 þús. eru bara reglur (Forseti hringir.) sem skipta engu máli.