136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- gengisfall krónunnar -- orð heilbrigðisráðherra.

[10:58]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið venjan á hinu háa Alþingi að þingmenn verji ráðherra sína. En hér hefur verið beint fyrirspurnum til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar út af hækkuðum sköttum og lækkun launa opinberra starfsmanna og til hv. þm. Þuríðar Backman varðandi orð heilbrigðisráðherra í gær. En engu er svarað. Þetta er hrópandi þögn. (Gripið fram í: Hverju svaraði …?) Þeir hljóta að skammast sín svona fyrir þessi orð ráðherra sinna. (Gripið fram í.)

Það féllu í gær orð frá hæstv. heilbrigðisráðherra sem er algjörlega óviðunandi fyrir bæði lækna og aðrar heilbrigðisstéttir að sitja undir. Læknar starfa ekki í tómarúmi. Þeir eru með starfsfólk með sér sem vinna að sama markmiði. Ef læknar eru að svíkjast undan og stinga í vasa peningum fyrir verk sem ekki eru rétt unnin og þeir veita meðferð sem er ónauðsynleg standa ásakanirnar líka á samstarfsfólki þeirra. Þetta er með ólíkindum að hæstv. heilbrigðisráðherra ásaki heilbrigðisstarfsmenn landsins fyrir vinnusvik. Ekki er hægt að láta því ósvarað á hinu háa Alþingi og ég skora á hv. þm. Þuríði Backman að svara spurningu minni hér áðan.

Hvað segja þessi orð hæstv. ráðherra um viðhorf vinstri grænna til þessa stóra hóps opinberra starfsmanna? Þau orð sem voru látin falla í gær og birt eru m.a. á forsíðu Morgunblaðsins í dag eru með ólíkindum.