139. löggjafarþing — 134. fundur,  27. maí 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[11:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hæstv. utanríkisráðherra séum sammála um að við séum sömu skoðunar og við vorum vorið 2007, að það séu mjög mörg tækifæri innan vébanda EES-samningsins til að hafa heilmikil áhrif á það sem gerist og er að gerast innan ESB. Við höfum hins vegar verið ódugleg við að reyna að nýta okkur þetta og við þingmenn verðum þá bara að líta í eigin barm og reyna að breyta því. Ég færði stuttlega rök fyrir því að fjárhagslegir hagsmunir í þessu sambandi væru mjög litlir. Það kostar ekki mikið að gera það miðað við það að láta þessa hluti fara fram hjá sér og miðað við þann kostnað sem við erum núna að leggja í varðandi aðildarumsóknina að ESB.

Þegar við skoðum þetta og berum saman þær gerðir og tilskipanir sem við höfum innleitt hér við þær gerðir og tilskipanir sem Evrópuþingið hefur samþykkt er alveg ljóst að sem betur fer yfirtökum við ekki nema hluta af því. Nóg er nú samt. Ég er einfaldlega að segja að í ljósi reynslunnar tel ég að við eigum núna að vera mjög krítísk á það (Forseti hringir.) sem verið er að kasta inn í þingið frá hæstv. ráðherra í formi tilskipana vegna þess að við þurfum að skoða það hvort það sé einhver raunveruleg þörf á því að innleiða allt sem við erum að innleiða (Forseti hringir.) hér með þessum samþykktum.