144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski fullsnemmt að fullyrða eitthvað um fjárframlögin. Nú þegar er stór hluti nemendanna í Reykjavík og þá fer verulegur hluti af framlaginu sem fer í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þangað. Þegar kemur aftur að móti að hinum stefnumótandi áherslum þá legg ég upp með það að þótt við t.d. skoðum vel þá hugmynd að reka hér einn skóla sem hefði þjónustuskyldur við aðra skóla, skóla sem væri hugsaður fyrir nemendur sem ætluðu sér að leggja þetta fyrir sig sem atvinnumenn, sem tæki nemendur inn á inntökuprófum og inntökuskilyrðum, þá þýðir það ekki þar með að menn ætli sér að hætta einhverjum stuðningi við skólana sem eru vítt og breitt um landið. Þetta eru reyndar ekki mjög margir skólar, þeir eru ekki á mörgum stöðum á landinu en þeir skipta verulega miklu máli í þessum samfélögum.

Það þarf að liggja fyrir hvers vegna og í hverju stuðningurinn felst og hvernig kerfið er upp byggt. Það þarf að skýra það miklu nákvæmar. Ég veit að við erum sammála, ég og hv. þingmaður Katrín Jakobsdóttir, um að samkomulagið frá 2011 kenni okkur að það þarf að skrifa það miklu nákvæmar. Það kann að kalla á að breytingar verði á tekjuskiptingunni eða á verkaskiptingu samkomulagsins sem liggur fyrir.

Hvað varðar aftur á móti aðrar listgreinar þá er það mjög áhugaverð spurning því að auðvitað er hugmyndin sem við höfum verið að ræða varðandi einn svona skóla angi af umræðu sem var hér á árum áður um það hvort ætti að vera skóli á framhaldsstigi í listum. Þarna væri um slíkt skref að ræða, en það væri ekki hugsað sem almennur, opinn framhaldsskóli heldur sérstaklega ætlað þeim sem væru að fara í þessa listgrein. Það gæti auðvitað leitt til þess að menn mundu velta fyrir sér öðrum listgreinum í framhaldinu. En munurinn á þeirri umræðu sem var þá og þeirri sem er nú verið að hugsa um er sá að þá var þetta svolítið hugsað sem opinn skóli sem væri opinn öllum. Þarna væri um að ræða námskeið fyrir þá sem hefðu sýnt það og gætu sýnt það, m.a. í gegnum inntökupróf, að mikil alvara væri á ferðinni hjá viðkomandi einstaklingum og þeir ætluðu að leggja út á listabrautina sem starfandi listamenn.