136. löggjafarþing — 135. fundur,  17. apr. 2009.

skaðabótalög.

438. mál
[20:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um breytingu á skaðabótalögum, frumvarp sem hv. allsherjarnefnd flytur. Þetta mál hefur verið til meðferðar hjá nefndinni í býsna mörg ár, fyrst á síðasta kjörtímabili. Það er mikið fagnaðarefni að frumvarpið sé nú að verða að lögum vegna þess að það felur í sér mikla réttarbót fyrir hóp tjónþola sem hafa orðið fyrir miklu tjóni en þurft að sæta því að bætur þeirra hafa verið skertar með afskaplega ósanngjörnum hætti vegna skerðingarákvæða skaðabótalaganna eins og þau eru nú.

Með samþykkt þessa frumvarps heyrir þessi ósanngirni sögunni til gagnvart fólki sem verður fyrir tjóni og á um afskaplega sárt að binda. Ég fagna þessu frumvarpi og hvet alla til að greiða því atkvæði sitt.