139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

lengd þingfundar.

[11:35]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. forseti Alþingis óskar eftir því að blásið verði til kvöldfundar vegna mála á dagskrá er eðlilegt að þingið sé upplýst um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og yfirstjórnar þingsins um þau mál sem til umfjöllunar eru. Ég óskaði eftir því að verða upplýstur um það hvað ríkisstjórnin ætlaði sér með þessum málum, hvort til stæði að klára þau á þessu þingi eða ekki. Það er fokið í flest skjól þegar hv. þm. Helgi Hjörvar kallar slíkar bænir hagsmunagæslu dauðans fyrir útgerðina. Við viljum bara fá að vita hver áformin eru.

Ég get svo sem vel skilið að hæstv. ríkisstjórn vilji nýta sumarið til að fara yfir þetta mál og snúa þá stjórnarliða niður sem hafa lýst yfir andstöðu við málið eða gert við það almenna fyrirvara. Það er eðlilegt þegar þannig er komið hjá hæstv. ríkisstjórn en ég (Forseti hringir.) get þá ekki skilið hv. þm. Helga Hjörvar öðruvísi en svo að hann sé andsnúinn sumarþingi hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) og ég spyr hæstv. forseta: Hver eru áformin (Forseti hringir.) með þetta mál?