139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Málflutningur hv. þingmanns er á þann veg að verið sé að banna útgerðarmönnum að gera út héðan í frá. (JónG: Nei.) Útgerðarmenn eru ekki skildir eftir með neinar skuldir. Í stóra frumvarpinu er talað um að gera samninga um nýtingu aflaheimilda til 15 ára og möguleika á framlengingu um átta ár. (JónG: Það er bara verið að taka helminginn af aflaaukningu.) Ef það er ekki rekstraröryggi veit ég ekki hvað það er. [Frammíköll í þingsal.] Við þekkjum öll að margar atvinnugreinar mundu vilja búa við það rekstraröryggi að vita hvað væri fram undan næstu 15 árin til að treysta atvinnuna og hafa aflaheimildir til að veiða. Við gætum rætt það við þá sem eru í verktakageiranum, byggingargeiranum, í verslun og viðskiptum sem hafa kannski ekki öryggi nema næstu þrjá mánuði. Hér er verið að búa þessari grein, miðað við hvað hún hefur í dag og miðað við ákveðið hlutfall af aflaaukningu, öryggi til allt að 23 ára. Er hægt að biðja um meira?