144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[17:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um tímasetningar af því að fólk hefur haldið því fram í þessum stóli að það hafi verið byrjað á röngum enda og kallað hefur verið hér fram í af þingmönnum sem studdu málið á sínum tíma að það sé rétt. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þá umræðu. Ástæðan fyrir því að þetta var gert á vordögum 2013 var sú að við vorum að kalla eftir því aktíft að fjárfesting kæmi til landsins. Við horfðum til svæða utan höfuðborgarsvæðisins og horfðum norður í land þar sem skipti máli að við byggðum upp og hæfum uppbyggingu.

Hvað á að selja fjárfestum þegar svæðið hefur enga innviði, enga vegi, ekkert rafmagn, engar línur, ekkert? Hvað eigum við þá að segja fólki? Áttum við frekar að gera eins og gert var í Helguvík og segja sveitarfélaginu bara að æða af stað, hefja fjárfestingar og vonast svo til að menn kæmu og fjárfestu? Er það betra? Hvernig átti fólk að treysta því að þessir innviðir yrðu þarna? Þess vegna skil ég ekki alveg þessa umræðu. Það var mat okkar sem greiddum atkvæði með þessu frumvarpi, fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi, að það skipti máli við þessar aðstæður að sýna þeim sem hingað vildu koma og fjárfesta að þegar þeir færu af stað yrði ríkið tilbúið til að fara í innviðauppbyggingu. Það mundi ekki fara af stað fyrr en fjárfestingin væri í höfn til að lenda ekki í því sama og menn lentu í með höfnina suður með sjó. Þetta var ábyrg afstaða.

Ég tek undir að það er vægast sagt sérkennilegt að setja tölu inn í frumvarp. Ég sé eftir því að hafa ekki gagnrýnt (Forseti hringir.) þann þátt málsins vegna þess að það er óvanalegt.