139. löggjafarþing — 136. fundur,  31. maí 2011.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, fyrir þessa fyrirspurn og vil jafnframt nýta tækifærið til að minna hv. þingmann á góðar rætur Framsóknarflokksins þar sem margir öflugir liðsmenn fyrri tíma töluðu einatt og með sterkum og góðum hætti fyrir friði og því að Ísland ætti að vera friðsöm, herlaus þjóð og standa utan NATO. (Gripið fram í.) Ég hef einmitt tekið eftir því hversu mjög Framsóknarflokkurinn hefur leitað í gamlar rætur og ég hlakka til að eiga samræður um þetta við hv. þingmann og fleiri þingmenn Framsóknarflokksins. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga lögð fram, til að biðla til þingheims alls og allra þingmanna með nýja hugsun í huga, og nýja breytta tíma. Við höfum talað um það í kjölfar hrunsins að við þurfum nýtt hugarfar. Þurfum það ekki líka á heimsvísu? Er ekki kominn tími til að endurskoða eldgömul kaldastríðsgildi, kaldastríðsnálganir styrjalda? Höfum við ekki lært af Írak og Afganistan? (Gripið fram í.) Höfum við ekkert lært? [Kliður í þingsal.]

Varðandi spurningu hv. þingmanns, svo ég reyni að svara henni: Er þetta til að friðþægja kjósendur Vinstri grænna? Nei, þetta er stefna Vinstri grænna eins og allir vita og hefur verið frá upphafi. Þetta er ekki til að friðþægja einn eða neinn heldur ekki síst til að, eins og ég segi, biðla til þingheims um að hugsa upp á nýtt og vera með okkur í því.

Munum við berjast gegn aðild að NATO? Já, ég mun sannarlega gera það. Ég mun gera það hér á þessum vettvangi, vettvangi þingsins. Það held ég að sé best gert með því að stofna kannski leshring um breytingar á eðli Atlantshafsbandalagsins (Forseti hringir.) og fara vel í gegnum það. Ég er til í þann slag og ásamt hv. þingmönnum Framsóknarflokksins getum við líka farið í rætur gamla góða Framsóknarflokksins.