145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með lögunum sem samþykkt voru í vor þá bjuggum við í haginn fyrir þessar aðgerðir þannig að aflandskrónuhlutinn fór þá annaðhvort inn í þátttöku í útboðinu eða inn á sérstaka reikninga sem háðir eru takmörkunum. Þannig voru lögin í sjálfu sér hlutlaus gagnvart því sem við erum að gera núna. Það hefur ekki áhrif á þau skref sem eru tekin núna hvort eða að hve miklu leyti krónur tóku þátt í útboðinu. En eins og ég vék að í inngangsorðum mínum mun það hafa áhrif á næstu skref og ákvarðanir í framtíðinni um fullt afnám hafta, ákvarðanir um fullt afnám hafta verða ekki teknar án þess að áhrif þess fyrir krónur á reikningum sem háðir eru sérstökum takmörkunum verði teknar með í myndina.

Hérna held ég að áfram þurfi að gilda það sama og hefur gilt fram til þessa. Við þurfum að meta stöðuna hverju sinni. Við treystum okkur til að stíga þetta skref núna. Útlitið er bjart. Við erum vongóð um að geta stigið frekari skref á næsta ári til þess að opna enn frekar fyrir frelsi í fjármagnsflutningum. Það er ekki tímabært að svara því hvenær það skref verður stigið að sameina á endanum aflandskrónumarkaðinn og álandskrónumarkaðinn.