150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

frestun kjarasamningsbundinna launahækkana.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann vitnaði hér til orða annars vegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hins vegar hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um þá hugmynd að fresta launahækkunum. Ég vil fyrst segja hv. þingmanni, hann spyr hvort þetta hafi verið rætt í ríkisstjórn, að það er ekki svo. Þetta hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn. Hins vegar var þetta rætt, ekki af hálfu ríkisstjórnarinnar en af hálfu annarra aðila á fundi þjóðhagsráðs sem haldinn var í gær, þar sem sitja forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Og eins og kom nú raunar mjög skýrt fram í máli þeirra beggja ráðherra sem hv. þingmaður nefnir þá fer þetta samtal auðvitað ekki fram nema við samningaborðið milli aðila. Það hlýtur að snúast um miklu stærri heildarmynd sem væri undir. Ég segi það hér að ríkisstjórnin er ekki að fara að setjast við það borð. Við höfum gefið skýra yfirlýsingu um okkar aðkomu að kjarasamningum og vinnum enn þá samkvæmt henni. Þá er ég að sjálfsögðu að vitna í yfirlýsingu okkar í tengslum við lífskjarasamninga. Við vorum nú að ljúka 2. umr. og atkvæðagreiðslu um eitt af málum sem er nátengt þeirri yfirlýsingu, þ.e. frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildarlán og stuðning við fyrstu kaupendur.

Málið hefur ekki verið rætt í ríkisstjórn að mínu viti og ég tel að við séum öll sammála um það að slíkt samtal á fara fram við samningaborðið á hinum almenna markaði og hlýtur þar að vera alltaf hluti af einhverri stærri heildarmynd. Forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar og forsvarsmenn atvinnurekenda hafa tjáð sig í fjölmiðlum um þessar hugmyndir en ég ítreka að þarna er ríkisstjórnin ekki að leggja neitt til.