150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir kjarnaspurningar í raun og veru. Á hvaða atvinnugreinar eigum við að leggja áherslu við þessar kringumstæður? Hvernig eigum við að koma okkur út úr kreppunni? Það á sér auðvitað samhengi í tíma. En þetta eru kjarnaspurningar. Já, það er mjög mikilvægt en það er líka jákvætt að taka þá ákvörðun að viðhalda opinberu þjónustustigi og fara ekki inn í skatta- eða bótakerfin við slíkar kringumstæður. Það er ákvörðun að leyfa þannig sjálfvirkum sveiflujöfnurum að virka. Það er ákvörðun og við leggjum áherslu á að við höldum okkur við þá ákvörðun.

Þá ætla ég að víkja að þessu með nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það verður líklegast aldrei nóg gert á því sviði og við getum gert miklu betur. Ég held að augu okkar hafi opnast svolítið hér þegar við vorum að vinna fjáraukalagafrumvarpið. Þar voru 100 milljarðar, ef ég legg allt saman, í þremur frumvörpum. Þar var átak í fjárfestingum. Þar var átak í nýsköpun, rannsóknum og þróun og þar var áhersla á menntun og tækifæri til menntunar. Við þessar kringumstæður kristallast allt þetta, hvers lags lykilatriði þetta eru þegar horft er til framtíðar. Það tekur tíma fyrir sprota að komast á legg o.s.frv. og ég veit að hv. þingmaður sem ræðir mikið þau mál þekkir það mjög vel. Skjótasta leiðin til að bregðast við atvinnuleysinu hlýtur að vera að ferðaþjónustan eigi sér viðspyrnu. Við erum búin að setja fjármagn í framleiðslutæki um gjörvallt land, hvort sem það er í afþreyingarþjónustu, gistiþjónustu, flutninga með langferðabifreiðum eða annað. Það eru allt ónotuð framleiðslutæki. Langstærstur hluti atvinnuleysisins (Forseti hringir.) speglast í ferðaþjónustunni, þannig að það blasir við að (Forseti hringir.) fljótasta leiðin til baka er að nýta þau (Forseti hringir.) framleiðslutæki og það vinnuafl.