150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns væri áhugavert að leggja saman þær upphæðir í fjárlögum 2020 og fjárauka þrjú sem fóru í kvikmyndagerð til að fá út heildarumfangið á þessu ári. Það væri miklu réttlátara. Þetta er endurgreiðslukerfi sem við höfum verið með en það þarf alltaf að fjármagna það og viðhalda því. Við getum ekki látið það verða út undan, þetta er kerfi sem hefur verið byggt þannig upp.

Varðandi fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, og hv. þingmaður veit að ég er mikill áhugamaður um samgöngumál og fjárfestingar í þeim, væri það sterkasta sem menn gætu gert hér á höfuðborgarsvæðinu að fara í Sundabrautina og fara að taka heils hugar undir það. Hvaða afstöðu hefur hv. þingmaður gagnvart þeirri mikilvægu framkvæmd? Við erum að gera ótrúlega margt og víða. Tækniþróunarsjóður, rannsóknir — það er verið að setja meira fjármagn í þessa þætti en við höfum séð um árabil. Það eru gríðarlega háar upphæðir og háar prósentuhækkanir sem hafa verið í gangi.

Við skulum aðeins skoða tilfærslukerfin og þróun þeirra á síðustu árum. Þegar við erum að tala um tilfærslukerfið eru undir Atvinnuleysistryggingasjóður, Fæðingarorlofssjóður, málefni aldraðra og málefni öryrkja. Það hlutfall í ríkisreikningi hefur vaxið úr 14,8% í 23,2% á síðustu tíu árum. Tilfærslukerfið hefur hækkað um 8 prósentustig af heildarríkisreikningnum. Því er ekki hægt að segja annað en að verið sé að gera ýmislegt og víða. Það þarf alltaf að ráðstafa fjármagni með einhverjum hætti og það hefur kannski verið ein ástæðan fyrir því að minna hefur verið hægt að setja í fjárfestingar í samgönguinnviðum á síðasta ári að fjármagnið hefur mikið farið í tilfærslukerfið.

Þetta er fín umræða og af mörgu að taka. Ég neita því að ekkert hafi verið gert. Ótrúlega margt hefur verið gert á ótrúlega mörgum sviðum (Forseti hringir.) síðustu þrjú ár í gegnum ríkisreksturinn og fjárlög.