150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil gera alvarlega athugasemd við fundarstjórn hæstv. forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, áðan þegar hann reyndi að smygla máli á dagskrá án samráðs við þingflokksformenn. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fundað um að leggja fram frumvarpið sem forseti reyndi að koma á dagskrá áðan en þar gengu nefndarmenn skiljanlega út frá því að slíkt yrði gert í samráði við þingflokksformenn, eins og venja hefur verið hingað til. En í stað þess að láta svo lítið að tala við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar um að koma málinu á dagskrá beitir forseti bolabrögðum.

Mér finnst svo sorglegt, virðulegi forseti, að ég skuli hafa óttast einmitt þetta. Ég óttaðist að forseti myndi nýta tækifærið þegar þingmenn fá ekki dagskrá fyrir framan sig — þegar fundir eru haldnir hver á eftir öðrum þá höfum við ekki dagskrána, höfum ekki yfirsýn yfir hvað er verið að samþykkja — til að lauma málinu á dagskrá án þess að tala við þingflokksformenn. Það er gríðarlega sorglegt. Mér finnst gott að búið sé að staðfesta að forseti fór rangt með niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar vegna þess að beiðnin um afbrigði sem átti að lauma í gegnum þingið var sem betur fer felld. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)