150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[20:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni sem fór hér vel yfir nefndarálit 4. minni hluta sem hv. þm. Inga Sæland, fulltrúi í fjárlaganefnd, hefur sett saman. Þar er í grunninn rakið ýmislegt sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. Ég vil bara árétta, frekar en að vera með spurningu til hv. þingmanns, að það sem við erum að gera er að taka lán til þess að geta staðið við þá stefnu að draga ekki úr opinberri þjónustu og halda okkur við framkvæmdir og mótvægisaðgerðir sem lagt er upp með. Í því tekjufalli sem ríkissjóður verður fyrir í þessari kreppu, sem er afleiðing af því að atvinnulífið og heimilin verða fyrir miklu tjóni, þurfum við að fara í sértækar aðgerðir til að milda tjónið. Það höfum við verið að gera og gripið til hér í fjáraukalagafrumvörpum. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér en hv. þingmaður kom inn á hluta af því, greiðslu atvinnuleysisbóta á móti skertu hlutfalli og ýmis félagsleg úrræði sem mér gefst ekki tími til að fara yfir hér. Það er til að milda það tjón sem heimilin og atvinnulífið standa frammi fyrir. Þess vegna erum við að endurskoða stefnuna. Ég vil bara árétta það.

Sjálfvirku sveiflujafnararnir sem mönnum hefur orðið tíðrætt um eru auðvitað tilfærslukerfin, öll félagslegu kerfin sem er fullyrt hér að við viljum standa vörð um. Það er lykilatriði. Þegar við ræðum síðan fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp þá skulum við ræða leiðirnar og útfærsluna.