139. löggjafarþing — 139. fundur,  1. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu hefur einmitt farið frekar lítið fyrir því málefni sem hv. þm. Jón Gunnarsson nefnir. Það er nefnilega verið að breyta hér leikreglum eftir á og það er ekki bara vegið að atvinnuréttindum manna úti um allt land heldur er jafnframt stappað mjög nálægt eignarrétti manna. Eins og þingmaðurinn fór vel yfir hafa ýmsir aðilar keypt sér aflaheimildir á síðustu árum og spilað í því kerfi sem búið var að búa til og nokkur sátt ríkti um. Ekki einungis tóku þeir á sig skerðingu árið 2007 heldur á núna að dæla aftur inn í kerfið nýjum heimildum og þessir aðilar eiga ekki að fá aðgang að þeim.

Þegar stjórnvöld fara fram með mál af því tagi að það sé verið að traðka á stjórnarskrárvörðum réttindum og, eins og lagt er til með þessu frumvarpi, raunverulega kippa fótunum undan ákveðnum aðilum bakar ríkið sér skaðabótaskyldu, það er ekki nokkur einasti vafi. Ég efast um að nokkuð hafi verið hugsað um það þegar þessi frumvörp voru lögð hér fram. Ætlar íslenska ríkið að standa frammi fyrir mörgum tugum málsókna í þessari stétt líka? Er ekki nóg fyrir dómstóla að þurfa að leysa úr málefnum heimilanna og fyrirtækjanna, auk annarra mála sem fyrir dómstólum liggja, ætla þeir líka að taka þá áhættu að atvinnugreinin þurfi að fara í stríð og fyrir dómstóla með þessi mál? Mér sýnist stefna í það. Auðvitað lætur einhver reyna á rétt sinn í þessu máli ef frumvörpin ná fram að ganga.