131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[15:12]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að beina nokkrum spurningum að hv. þingmanni, varaformanni sjávarútvegsnefndar. Ég var á Siglufirði fyrir skömmu að undirbúa utandagskrárumræðu sem verður von bráðar. Það var mjög góður fundur og ég fór víða. Þar voru menn mér almennt sammála hvað varðar mjög miklar áhyggjur af nýliðun í sjávarútvegi. Það er eitt af vandamálunum við þetta kerfi sem hv. þm. var hálft í hvoru að mæra að óhægt er með nýliðun. Hefur hann engar áhyggjur af því? Þetta eru áhyggjurnar sem fólkið hefur á Siglufirði.

Síðan er hitt sem er alveg borðleggjandi að það er minni fisk að fá á miðunum fyrir norðan en fyrir sunnan. Í kvótakerfi borgar sig frekar að leigja fiskinn fyrir norðan og láta veiða hann fyrir sunnan, þeir sem eru handhafar kvótans og búa á Siglufirði, í Ólafsfirði eða hvar sem er. Það er mjög óskynsamlegt að veiða minni fisk. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af þessu og telur hann ekki að það þurfi að leiðrétta?

Svo er annað sem mig langar að spyrja hann. Hv. þingmaður mærir þá skýrslu sem hefur verið hér til umfjöllunar og mér finnst vera ansi þunn, vægast sagt. Hefði ekki verið nær að menn legðu á borðið einhverjar mælistærðir um það hvernig við mælum árangurinn í byggðamálum? Við fengjum hér tölur um fjölda starfa, hvernig fjölgun starfa hefði þróast og upplýsingar um íbúaþróun? Ég hefði talið það miklu nær þannig að við gætum verið hérna í vitrænum samræðum um þróunina.