137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Mig langar í fyrsta lagi að minnast á mál sem er mjög stórt og snertir að mínu mati störf okkar í iðnaðarnefnd. Mig langar því að beina orðum mínum til formanns iðnaðarnefndar. Ég vildi aðeins fá að heyra hver hans tilfinning, áhugi og viðhorf er til fyrirtækisins ORF Líftækni og þeirrar starfsemi sem það er með og þess sem fyrirtækið vill gera varðandi erfðabreytt bygg. Ég ætlaði reyndar að hafa þetta svolítið lengra og ítarlegra en tíminn er mjög naumur, skilst mér.

Mig langar líka að koma inn á það sem kom fram áðan varðandi stýrivextina. Það er náttúrlega ljóst að sú ákvörðun sem kynnt var í morgun er áfall fyrir fyrirtækin í landinu, áfall fyrir þjóðina. Það er alveg ljóst að kallað hefur verið eftir því í langan tíma að stýrivextir væru lækkaðir miklu meira og miklu hraðar. Það er mjög sérstakt ef farið er yfir þessa stöðu að búist var við hraðri lækkun stýrivaxta í júní samkvæmt frétt í Morgunblaðinu 8. maí og vitnað í seðlabankastjóra. En þar segir hann jafnframt að uppfylla þurfi nokkur atriði til að það gangi eftir og segir m.a. að það sé mikilvægt til að ná jafnvægi í fjármálum hins opinbera til lengri tíma og þannig stuðla að efnahagsbata. Sagðist hann sannfærður um að það yrði gert og það væri forsenda umtalsverðrar stýrivaxtalækkunar í júní.

Forsenda stýrivaxtalækkunar er að ríkisstjórnin nái tökum á efnahagsmálunum. Það hefur ekki gerst og þess vegna eru stýrivextirnir ekki lækkaðir. Ríkisstjórnin er að bregðast, góðir tilheyrendur, og það er mikið áhyggjuefni, það er mikið mál.

Hæstv. forsætisráðherra sagði einnig í Morgunblaðinu þann 22. apríl, með leyfi forseta, að forsendur væru að skapast fyrir verulegri lækkun vaxta í landinu. Ég átta mig ekki á því á hvaða vegferð ríkisstjórnin er. Það er ljóst að hún er að bregðast, hún er ekki að standa sig og þess vegna lækka ekki stýrivextir.