139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

viðbrögð fjölmiðla við athugasemdum rannsóknarnefndar Alþingis.

35. mál
[17:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir ágæta fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin að svo miklu leyti sem hún gat þulið þetta hér í stólnum og hægt var að nema. Það verður auðvitað fróðlegt að fara yfir fjölmiðlafrumvarpið sem aftur er komið fram í þessu ljósi en ég vil þó leggja áherslu á að fyrir utan almennan lagaramma snýr það auðvitað fyrst og fremst að ríkisvaldinu og Alþingi Íslendinga að búa þannig að Ríkisútvarpinu, hvaða skammstöfun sem þar kemur á eftir, að það geti verið fyrirmynd annarra fjölmiðla, að það geti sett standardinn, svo töluð sé nútímaíslenska, og að það sé raunverulegt almannaútvarp og þurfi ekki að keppa við aðra fjölmiðla um auglýsingar með þeim afleiðingum sem eru óhjákvæmilegar.