154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:08]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa munnlegu skýrslu. Hæstv. forsætisráðherra sagði að við værum á réttri leið. Nú er ég með skýrslu frá Barnaheillum, eða Save the children, sem eru mjög merkileg samtök, stofnuð 1919 og svo 70 árum seinna á Íslandi. Þar er fjallað um fátækt fjölskyldna á Norðurlöndunum. Samkvæmt þessari skýrslu erum við ekki á réttri leið. Fátækt barna er að aukast á Íslandi samkvæmt þessari skýrslu. Eins og hv. þm. Inga Sæland sagði er 44% aukning á fátækt barna. Það er einungis Svíþjóð sem er með meiri fátækt barna en Ísland. Þegar við skoðum stefnu stjórnvalda, sem Barnaheill gera ráð fyrir að eigi að vera, þá skorum við bara stig á einum stað. Það er varðandi eftirskólaprógrömm, þau eru ókeypis eða mjög mikið niðurgreidd. Við erum ekki með neina þjóðarstefnu um þennan málaflokk. Við erum með ekki með neina tölfræði raunverulega, ekki með neina vísa o.s.frv. Það er eitt atriði sem við skorum í. (Forseti hringir.) Hvernig getum við verið á réttri leið þegar fátækt barna er að aukast?