154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:55]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég get svarað hv. þingmanni þannig að ég er sammála hugmyndafræðinni. Hvort það eigi að vera 400.000 kr., ég veit það ekki. Á hverju er það byggt? Hvaða rannsóknir liggja að baki? (Gripið fram í.) — Já. Þetta er það sem mig hefur langað að gera með þessa hugmynd um borgaralaun sem ég lýsti áðan. Það er að reikna dálítið út. Mér finnst vanta heildarsamhengi í þetta. Hvernig ætlum við að breyta skattkerfinu til að koma til móts við þetta? Hvernig breytum við tilfærslukerfum, tekjukerfinu og öllu í samræmi við þessar ákvarðanir? Þegar einhverri tölu eins og 400.000 kr. er hent fram treysti ég mér ekki til að segja: Jú, það er rétta talan. Ég er samt algjörlega hlynnt þessari hugmyndafræði og þessari hugmynd. Ég á erfitt með að segja: Já, mér finnst þetta rétta upphæðin og ég styð hana fullkomlega. Ég vona að það svari þessu. Það er ástæða þess að ég er ekki á málinu. Það þýðir samt ekki að ég myndi ekki styðja málið þegar það hefur verið rætt í nefnd og í þingsal. Það getur vel verið að svo verði þótt ég sé ekki meðflutningsmanneskja á málinu. Ég hef fundið fyrir því að við erum oft í svipuðum hugleiðingum og pælingum. Hugmyndafræðin er sú sama og líka raunverulegur vilji til að uppræta fátækt og trú á því að það sé hægt. Mér finnst það svo áhugaverð pæling. Ég er ekki viss um að allir hér, þvert á flokka, séu sammála um að það sé raunhæft. Ég held að margir sjái þetta hugmyndafræðilega sem eitthvað sem er innbyggt í samfélagsgerðina sem ekki sé hægt að koma í veg fyrir. Ég er ekki þar. Við eigum að breyta samfélagsgerðinni.