131. löggjafarþing — 14. fundur,  21. okt. 2004.

Byggðaáætlun fyrir árin 2002--2005.

216. mál
[16:08]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla vegna byggðaáætlunar og hefur verið til umfjöllunar í þinginu það sem af er þessum degi. Ég tel afar mikilvægt að byggðaaðgerðir séu ræddar í þinginu og hv. þingmönnum gefist færi á að fara yfir þau verkefni sem sett eru upp og unnin á forsendum byggðaáætlunar.

Það fer ekki á milli mála að aðgerðir til að efla byggðirnar hafa skilað árangri á margan hátt. Engu að síður hefur íbúum verið að fækka á ýmsum svæðum á landsbyggðinni. Það er staðreynd sem ekki er hægt að víkja sér undan að takast á við. Það veldur í mörgum tilvikum vandkvæðum hjá sveitarfélögum þegar veruleg fækkun verður og tekjur sveitarfélaganna lækka. Í því ljósi leggur ríkisstjórnin að sjálfsögðu mikla áherslu á að leita allra leiða til að treysta byggðina í landinu og hamla gegn þeirri óæskilegu þróun að fólki fækki í blómlegum byggðum.

Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með byggðamál í ríkisstjórninni, hefur gert grein fyrir þeim í skýrslunni sem hér liggur fyrir. Hún fór mjög ítarlega yfir þau verkefni sem unnið hefur verið að á undangengnum missirum.

Á vettvangi samgönguráðuneytisins er fjallað um mjög marga og mikilvæga þætti sem skipta miklu þegar hugað er að aðgerðum til að tryggja og efla byggðina í landinu. Tilgangurinn með því er auðvitað að bæta lífskjörin í landinu. Það að við byggjum landið allt, byggjum upp samgöngukerfið og atvinnulífið er fyrst og fremst til að nýta kosti þess, nýta auðlindirnar við ströndina, auðlindir í hafinu og auðlindir á landi. Við þurfum að nýta þá kosti sem landið hefur upp á að bjóða, m.a. í ferðaþjónustu. Það er mikilvægt verkefni.

Á vegum samgönguráðuneytisins er unnið á mörgum sviðum sem tengjast byggðaaðgerðum. Talað hefur verið um að samgöngumál, fjarskiptamál, ferðaþjónusta og menntamál séu þættir sem hafa afgerandi áhrif á byggðaþróun. Góðar samgöngur, góð fjarskipti og góð menntun styrkir atvinnulíf á landsbyggðinni. Til þess að við getum eflt atvinnulífið á landsbyggðinni þurfum við vel menntað fólk og góðar búsetuaðstæður.

Því ber að fagna að á sviði menntamála höfum við tekið mjög á á undangengnum árum. Við höfum byggt upp framhaldsskóla vítt og breitt um landið. Þeim fjölgar enn vegna þess að það er krafa íbúanna að við reynum að tryggja ungu fólki menntun í heimabyggð og reynum að bæta þannig aðstæður heimilanna. Þess vegna er framhaldsskólunum í landinu að fjölga. Það er mikill vilji til þess að efla framhaldsskóla úti á landi.

Með sama hætti höfum við unnið að því að efla háskólastarfsemi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Viðskiptaháskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri. Segja má að lyft hafi verið grettistaki með starfsemi Háskólans á Akureyri í þágu byggðanna. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé.

Á Hólum í Hjaltadal er mikilvæg háskólastarfsemi og vaxandi. Ég bind miklar vonir við starfsemina þar og er sannfærður um að hún mun skipta miklu máli. Á Vestfjörðum leggja menn á ráðin um hvernig megi efla háskólastarf og rannsóknir á háskólastigi. Það er mikill vilji til að finna leiðir til að það megi verða og að því er unnið.

Þetta vildi ég nefna alveg sérstaklega, þ.e. atriði sem ekki er fjallað sérstaklega um í byggðaáætluninni en eru mikilvægur þáttur í þessu sameiginlega verkefni okkar.

Í annan stað vil ég nefna samgöngumál, þ.e. vegamál, hafnamál og flugmál eru geysilega mikilvægur þáttur í öllum byggðaaðgerðum. Við höfum stóraukið framlög okkar til samgöngumála þótt við verðum að hægja á framkvæmdum öðru hvoru.

Við höfum byggt upp Reykjavíkurflugvöll í þágu innanlandsflugsins. Það er ekki svo lítil byggðaaðgerð, ekki bara fyrir Reykjavík, sveitarfélagið sem hýsir flugvöllinn, heldur er innanlandsflugið mikilvægt fyrir þróun byggðarinnar í landinu, fyrir þjónustu við íbúa landsins og vegna ferðaþjónustunnar.

Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja það upp og minna á að endurbygging Reykjavíkurflugvallar, uppbygging flugvallanna um allt land og umbætur í flugöryggi eru geysilega mikilvægt byggðamál. Það hefur sýnt sig að innanlandsflugið er að ná vopnum sínum að nýju. Það er aukning í innanlandsfluginu og það er vel. Það er m.a. út af aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir.

Við höfum verið að auka framlög til ferjusiglinga, t.d. til Herjólfs sem hefur fjölgað ferðum sínum. Á þessu ári eru settar ríflega 700 millj. kr. til þess að sinna ferjurekstrinum í landinu. Við látum yfir 160 millj. kr. til þess að styrkja sérleyfisstarfsemina í landinu, það er í þágu byggðanna. Sérleyfin hafa verið að styrkjast með endurskipulagningu og á næsta ári er gert ráð fyrir verulega miklum breytingum með útboði á sérleyfisleiðunum í landflutningunum en við höfum látið aukna fjármuni inn í þetta.

Við höfum verið að styrkja flugið en á þessu ári veitum við yfir 160 millj. kr. í styrki vegna flugs og það er í þágu byggðanna. Á vettvangi samgöngumálanna höfum við því verið að ná verulega miklum árangri og er ástæða til að tíunda það hér.

Framkvæmdir í vegamálum eru að allra mati geysilega mikilvæg byggðaaðgerð. Fyrir nokkrum dögum var greint frá úttekt á áhrifum Hvalfjarðarganga. Þar kom í ljós hversu geysimikla þýðingu göngin hafa fyrir byggðirnar norðan þeirra og hve miklar hagsbætur fylgja slíkri mannvirkjagerð í samgöngumálum. Við erum að vinna í jarðgöngum fyrir austan og við erum að vinna við framkvæmdir í vegamálum í öllum landshlutum sem munu skila sér mjög rækilega í traustari og öflugri byggðum bæði til lengri og skemmri tíma litið. Þetta vildi ég nefna sérstaklega í þessari umræðu.

Ferðaþjónustan hefur verið nokkuð til umræðu hér. Menn hafa réttilega bent á að styrking og efling íslenskrar ferðaþjónustu er meðal mikilvægra byggðaaðgerða. Náttúra og saga landsins ásamt öllum þeim möguleikum sem tengjast ferðaþjónustunni er einnig mikilvæg auðsuppspretta fyrir okkur. Þess vegna hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að ganga til samstarfs við aðila í ferðaþjónustunni um sérstakt landkynningarátak. Við höfum gert það undir merkjum Iceland Naturally í Ameríku og við erum að skoða hvort við eigum að gera það í Evrópu einnig. Frá árinu 2002 höfum við látið stóraukna fjármuni í markaðsaðgerðir, í rauninni landkynningu um allan heim í samstarfi við ferðaþjónustuaðila. Þetta hefur skilað sér í miklum vexti í ferðaþjónustunni.

Frá árinu 1998 hefur aukning gistinátta orðið geysileg. Til dæmis hefur vöxtur í gistinóttum erlendra ferðamanna á Vestfjörðum orðið um 83% á tímabilinu 1998 til 2003. Þetta er geysilega mikil aukning sem hefur einnig orðið í öðrum landshlutum en hvergi jafnmikil hlutfallslega og þar. Aðgerðir í samstarfi við atvinnugreinina hafa því skilað sér í fleiri störfum í ferðaþjónustunni, auknum gjaldeyristekjum, og áður en álverið á Grundartanga bættist við var ferðaþjónustan næststærsti atvinnuvegurinn, mælt á mælikvarða gjaldeyristekna. Hún fer nú væntanlega aftur fyrir iðnaðinn og stóriðjuna þegar vöxtur verður svo mikill þar. (Gripið fram í.) Í gjaldeyristekjum er það þannig. Þetta vil ég nefna hér sérstaklega.

Það eru margir sem eiga þátt í að efla ferðaþjónustuna og að efla byggðirnar á forsendum ferðaþjónustu. Ég vil þar nefna t.d. flugfélögin. Þar er hlutur Flugleiða auðvitað langstærstur en vegna leiðakerfis þeirra koma ferðamenn hingað allan ársins hring. Önnur flugfélög hafa einnig unnið gott starf sem skiptir miklu máli því allt er þetta þáttur í að efla ferðaþjónustuna og þar með byggðirnar.

Á vegum ráðuneytanna, t.d. í samstarfi við iðnaðarráðuneytið og samgönguráðuneytið, hafa verið veittir styrkir til landshlutasamtaka ferðaþjónustunnar og sveitarfélaganna til þess að markaðssetja landshluta. Norðlendingar hafa unnið mjög athyglisvert verkefni í markaðsaðgerðum, samstarf Norðurlandsins alls sem ég held að aðrir landshlutar ættu að taka sér til fyrirmyndar. Það verkefni var unnið með styrk frá ráðuneytunum á forsendum byggðaaðgerða, svo ég taki eitt agnarlítið dæmi. Landkynning, samstarf, sérstakar markaðsaðgerðir og öflug kynning hefur því skilað sér í þessari miklu aukningu hjá ferðaþjónustunni.

Virðulegi forseti. Tíminn líður hratt. Fjarskiptin hafa verið hér til umræðu eins og fyrri daginn og ég má til með að nefna að á vegum samgönguráðuneytisins hefur verið unnið mikið starf í því að efla fjarskiptaþjónustuna í landinu en auðvitað gerist það fyrst og fremst á vegum fyrirtækjanna sem eru í fjarskiptum. En breytingar á fjarskiptalögunum voru lykillinn að þessu, annars vegar að komið er á frelsi í fjarskiptum og hins vegar sú einstaka krafa í íslenskum fjarskiptalögum að hver einasti notandi fastlínukerfanna hjá markaðsráðandi fyrirtæki ætti að hafa aðgang að ISDN-tengingum, sem hefur síðan þróast mjög hratt eins og við þekkjum.

Í dag er staðreyndin sú að menn horfa ítrekað til þess að fjarskiptin efli byggðirnar. Aðgangur að háhraðatengingum fyrir sjónvarps- og útvarpssendingar á forsendum stafræna kerfisins er framtíðin og að því þarf að vinna og stefna að. Það er gert með þeirri vinnu sem nú er í gangi í samgönguráðuneytinu við að stilla upp fjarskiptaáætlun þar sem lagðar verða línur um það hvað stjórnvöld ætla sér að gera í fjarskiptum í framtíðinni. Ég tel að það sé mjög áhugavert verkefni sem ég vænti góðs samstarfs við þingmenn um því að það er e.t.v. ekki sísta aðgerðin í þágu byggðamála á Íslandi.