132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aðbúnaður hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

236. mál
[12:27]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég harma að ekki hafi verið haft betra samráð og samvinna við Félag unglækna um þetta mál og að hæstv. ráðherra eða embættismenn í ráðuneyti hans hafi ekki sest yfir það með unglæknum að leggja mat á þörfina fyrir fjölgun unglækna þar sem verulega ber á milli. Unglæknar telja að stöðugildi þurfi að vera 200 í lok tímabilsins en fjármálaráðuneytið talar um 160–170. Við erum því að tala um kannski 100 millj. kr. eða 150 millj. kr. sem þarna ber á milli eða meira. Mér sýnist að það sé til vansa að senda málið með þessum hætti til umfjöllunar í félagsmálanefnd sem hefur ekki nokkur tök á því að fara í þá vinnu sem þarf til að meta og leita skýringa á því hvað ber þarna á milli og komast að því hver sé skýringin á því. Ég óska eftir því við hæstv. félagsmálaráðherra til að flýta fyrir meðferð þessa máls í hv. félagsmálanefnd, enda er málið síðbúið, að hæstv. ráðherra leggi nú í það vinnu í sínu ráðuneyti með fulltrúum fjármálaráðuneytisins og kalli þá til sín fulltrúa Félags ungra lækna til að fara yfir hvað beri á milli í þessu mati þannig að félagsmálanefnd fái skýringu á því frá ráðuneytinu. Mér finnst það vera skylda ráðuneytisins þegar fram koma svona misvísandi upplýsingar um grundvallaratriði í þessu frumvarpi að hæstv. ráðherra kalli þessa aðila til þannig að félagsmálanefnd fái skýringar á málinu.

Nefndin hefur engin tök á að leggja í þá vinnu sem þarf til þess að fá þetta útkljáð. Það mun bara vera orð á móti orði ef kalla á til fulltrúa fjármálaráðuneytisins og fulltrúa unglækna. Ég held að hæstv. ráðherra verði sjálfur að fá fram skýringu á þessu og koma henni til hv. félagsmálanefndar.