137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:13]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er ákveðin upplifun fyrir þann sem hér stendur að sitja í umhverfisnefnd og takast á við ný verkefni. Það er hvort tveggja ánægjulegt og spennandi verkefni og viðfangsefni, sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem um þennan málaflokk er og áforma sem uppi eru alls staðar í þjóðfélaginu á þeim verkefnasviðum sem þessi málaflokkur tekur til.

Þetta er eitt af fyrstu málunum sem ég þarf að setja mig niður við og var gaman að fara í gegnum þetta plagg. Það er raunar merkilegt að fyrstu þrír málshefjendur við þessa umræðu eru umhverfisráðherrar núverandi og fyrrverandi, hæstv. allir saman. (Gripið fram í.) — Og tilvonandi, skýtur hv. þm. Eygló Harðardóttir hér inn. Þau bera að sjálfsögðu þennan málaflokk mjög fyrir brjósti og þekkja vel til.

Ég vil aðeins gera að umtalsefni það atriði sem komið hefur ágætlega fram í þeirri stuttu umræðu sem hér hefur staðið en það er hvernig þetta verk er unnið. Ég held að þessi litla umræða, framlagningin á málinu og viðbrögðin við ræðu hæstv. ráðherra, séu þess eðlis að við þurfum að gefa því rækilega gaum í umhverfisnefnd hvernig að þessum málum er staðið við yfirferð þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.

Hér kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni að einn mikilvægasti þátturinn í vinnslu og samþykkt náttúruverndaráætlunar sé sú kynning og umfjöllun sem áætlunin fær á Alþingi. Ég er alveg sammála því að það er grundvallaratriði til þess að ná fram þeim áformum sem í samþykkt slíkrar tillögu felast, með hvaða hætti ætlunin er að taka á í þessum málaflokki, að Alþingi sé með.

Í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af fyrstu áætluninni sem gerð var sem gilti fyrir árin 2004–2008 í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram hér í umræðunni, í greinargerðinni, hversu skammt hún hefur náð, spyr maður: Hvernig stendur á því? Hvernig getum við þá bætt úr? Hvar hefur tekist vel til? Hvað gekk illa? Hvar má bæta, o.s.frv. áður en umhverfisnefnd eða Alþingi og ráðuneyti eru búin að leggja það niður fyrir sér, setja ákveðna fyrirvara við að setja okkur ný tímasett markmið varðandi framkvæmd friðlýsinga í landinu? Á meðan okkur hefur ekki gengið betur en raun ber vitni geri ég kröfu um að við setjum okkur aðeins niður við að meta hvers vegna okkur hefur ekki tekist betur upp en hér gefur að líta.

Það kann vel að vera að það liggi í því sem nefnt hefur verið, þ.e. hvernig undirbúningi áætlunarinnar er háttað. Fram kemur í greinargerðinni að umhverfisráðherra hafi skipað starfshóp í júlí 2007 til þess að vinna að undirbúningi nýrrar áætlunar. Ég geri þá ráð fyrir því að umhverfisþingið leggi línur fyrir þetta plagg og það sé sambærileg vinna eða aðferð við þessa áætlun eins og við fyrri áætlunina. Þá spyr maður sig í ljósi þeirrar umræðu sem oft hefur komið upp hvort við þurfum ekki að breikka þennan grunn og búa til tillögugrunn sem birtist síðan í því skjali sem lagt er fyrir Alþingi. Ég hallast að því að við þurfum að stækka þann hóp með einhverjum hætti, ná tengingu víðar en gert er, það er gott að fleiri komi að vinnu en hér hefur verið lagt upp með.

Það hefur líka komið fram að í því sambandi hefur verið rætt um þau verkefni sem náttúrustofum landsins er ætlað að sinna. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson spurði um það í andsvari fyrr í umræðunum. Náttúrustofurnar hafa ákveðið lögskipað verkefni og eru í ágætistengslum við þau svæði sem þær eiga að sinna. Þeim er ætlað það hlutverk samkvæmt lögum að annast almennt eftirlit með náttúrunni á grundvelli ákveðinna laga og er heimilt með lögum að gera samninga á milli Umhverfisstofnunar og mismunandi náttúrustofa um tiltekin verkefni. Það væri fróðlegt að vita hvort að slíkir samningar hefðu verið gerðir, hvort þessi heimild í lögunum hefur verið nýtt.

Það kemur einnig fram í greinargerðinni að sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir hefur verið unnin í það knöppum tímaskala að ekki hefur unnist tími til þess að vinna með áætlunina í einhverju almennu kynningar- og athugasemdaferli. Það vekur upp þær spurningar hvort við munum þá ekki lenda í átökum og deilum með þessa þingsályktun ef það liggur fyrir skjalfest að kynningarferlinu hefur verið ábótavant. Þá held ég að við séum að stefna í eitthvað sem við getum komið okkur hjá ef við höfum áhuga á því. Ég veit það og treysti því að hæstv. umhverfisráðherra hefur ekki áhuga á því að vinna þetta með þeim hætti að átakapólitík verði kringum málið enda held ég að það sé grundvallaratriði fyrir okkur, ef við berum hag þessara mála fyrir brjósti, að reyna að koma umræðunni um umhverfismálin úr þeim átakafarvegi sem hann hefur verið í undanfarin mörg ár.

Ég nefndi það í viðræðum í hv. umhverfisnefnd um daginn við ráðherra að mat mitt á þessu væri að svokölluð fyrirmælapólitík í umhverfismálum skemmdi fyrir vilja landsmanna til þess að koma þörfum og brýnum málum fram. Ég held að við þurfum að koma verkefninu út úr fyrirmælapólitíkinni og það liggur fyrst og fremst í því hvernig við undirbúum málið, hvaða samráð við höfum við hagsmunaaðila á ólíkum sviðum úti í þjóðfélaginu. Eitt af þeim verkefnum sem ég legg áherslu á að við nýtum í því efni eru þau tæki og tól og sú faglega þekking og hæfni sem við eigum út um allt land í náttúrustofum og ýmsum áhugamannafélögum sem berjast þar fyrir ýmsum málum. En ég legg áherslu á að þau eiga að sjálfsögðu að taka sig saman um að móta einhverja skynsamlega og hagkvæma stefnu í þágu þjóðarinnar.

Þess vegna hef ég sett fyrirvara varðandi fjölgun þessara svæða, þ.e. þrettán friðlýstra svæða, sex blandaðra svæða og tveggja svokallaðra vistgerða, um að ég er ekki á neinn hátt í stakk búinn til þess að leggja mat á hvort þetta sé yfir höfuð framkvæmanlegt. En í ljósi reynslunnar af fullnustu fyrri áætlunar tel ég þetta gjörsamlega óraunhæf markmið.

Það er eitt atriði hér sem ég vil nefna sérstaklega — ég er nú að læra smátt og smátt þessi nöfn, breiskjuhraunavist og rústamýravist. Það lýtur að friðlýsingu og stækkun friðlýstra vistkerfa á breiskjuhraunavist, ef ég man þetta rétt, þar sem tillaga var gerð um að friðlöndin við Þjórsá og í Guðlaugstungum verði stækkuð. Gott og vel. Ég hlýt eðlilega að hafa ákveðinn fyrirvara við að stækka friðlandið í Þjórsárverum einfaldlega vegna annarrar vinnu sem er í gangi sem lýtur að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Vissulega eru það ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að stækka friðlandið í Þjórsárverum en ég spyr: Rekst ekki hvað á annars horn í þessu ef við ákveðum í einu orðinu að þetta skuli gert svona á sama tíma og við vinnum að öðru verkefni á sama stað? Verður þá sköpuð sátt um hvernig við ætlum að nýta þar náttúruauðlindir sem þjóðin þarf á að halda til þess að komast svona þokkalega og skynsamlega af í þessu landi eða hvort friða á landið?

Ég geri þá tillögu sem hér liggur fyrir sérstaklega að umtalsefni en hún er þess eðlis að hún grípur inn í ákveðið ferli sem í gangi er og nauðsynlegt er að reyna að ná sátt um. Ég tel að tillagan sé ekki í þá veru að skapa nauðsynlega sátt um það verkefni sem lýtur að nýtingu þeirra auðlinda sem kunna að vera fyrir hendi á þessu svæði.