145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

notkun dróna.

136. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég leyfi mér að benda á, nú í seinni ræðu minni um þetta mál, að skýrar reglur munu fremur verða til þess að auðga notkun flygilda og dróna í atvinnulífi en hitt. Það eru dæmi um það frá Frakklandi sem var, eins og ég sagði hér áðan, eiginlega fyrsta ríkið sem fór í það að setja reglur um notkun dróna, enda hafa þeir verið mikið notaðir í kjölfarið undir ýmsum kringumstæðum, í námafyrirtækjum, ég nefndi vínbændur, við járnbrautaeftirlit o.fl. Það eru endalausir möguleikar. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um smalamennsku og önnur verk að þar eru mikil tækifæri. Það skiptir máli að hafa skýrar reglur.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða að birta þessar reglur til kynningar eins og kom fram í máli hennar að stæði til að gera. Það er líka mikilvægt að við hugum að öryggissjónarmiðum, að við hugum að friðhelgi einkalífs og að slíkar reglur eigi ekki eingöngu við um notkun einkaaðila á drónum heldur sé líka skýrt hvaða heimildir opinberir aðilar muni hafa til að nýta dróna. Ég vitna þá til lögreglunnar sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur nú einhvern tímann gert að umtalsefni hér ef ég man rétt.

Við þekkjum að tækniþróunin getur verið góð en hún getur líka verið slæm. Þær fréttir bárust um helgina að Pakistan er núna fimmta ríkið sem innleiðir dróna sem drápsvélar. Það liggur fyrir að það eru 25 önnur ríki sem eru að skoða það að nýta dróna sem drápsvélar. Það eru 30 ríki allt í allt, fjögur ríki eru þegar farin í þennan leiðangur.

Ég vil nota tækifærið hér að lokum og minna á þingmál sem ég hef lagt fram og hef ekki fengið að mæla fyrir enn þá. Það er mjög mikilvægt að Ísland taki skýra afstöðu því að þeir sem standa fremst í rannsóknum á þessu sviði vita líka að löggjöfin er allt of oft langt á eftir tækniframförum. Stundum missum við hreinlega af lestinni þegar við ræðum slík mál á þingi.

Ég brýni hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum eins og ég mun brýna hæstv. utanríkisráðherra þegar ég fæ tækifæri til að tala við hann um aðrar og neikvæðari hliðar á þessari tækni.