151. löggjafarþing — 14. fundur,  22. okt. 2020.

eftirlit með innflutningi á búvörum.

[11:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Herra forseti. Ég held að grundvallarspurningin hér sé samkeppni og hvernig við stuðlum að því að hún fái eðlilega og heilbrigða umgjörð. Hún þarf auðvitað reglurnar með sér en hún þarf líka framkvæmdirnar með sér. Vanhöld þar á bitna auðvitað á innlendri framleiðslu og á neytendum, okkur öllum. Þetta eru alvarleg brot. Ég myndi vilja setja þetta í samhengi við aðra þætti eftirlitsins sem við höfum verið að gagnrýna hér og þar sem við vitum hver veruleikinn er. Það eru t.d. skattsvikin. Þar virðist vanta upp á eftirlitið líka. Þar höfum við gögnin, þar höfum við skýrslurnar en það vantar upp á að þessu sé fylgt eftir. Þetta vantar um verndartollana. Þetta vantar um skattana. Ég myndi segja að sú staðreynd að við erum á gráum lista tengist þessu efni líka.

Ég vona að sú umræða sem við eigum hér í dag um samkeppni og eðlilega umgjörð hennar verði ekki til þess að einhverjir stökkvi á þann bát að herða eigi að neytendum með því að draga úr vöruúrvali, draga úr innflutningi. Ef svo verður væri það vond afleiðing af stöðunni. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja að eðlilega sé staðið að verki þannig að innlend vara geti staðið jafnfætis erlendri á markaði og neytendur gjaldi ekki fyrir það ef illa hefur verið staðið að verki að þessu leyti.