154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir hennar ræðu. Ég tók eftir því strax í byrjun að hún sagði: Draga úr fátækt. Og ég verð að spyrja hana: Af hverju ekki að útrýma fátækt? Að draga úr fátækt. Hvað ætlum við þá að vera lengi að draga úr fátækt? Mér finnst þetta skelfilegt orðalag vegna þess, eins og ég hef oft sagt, að eitt barn í fátækt er einu barni of mikið.

Svo talaði hún um að hún fagnaði því að það yrði áframhaldandi greiningarvinna. Hversu lengi á sú greiningarvinna að vera? Hvenær er greiningarvinnu lokið og framkvæmdir hefjast til að útrýma fátækt? Hvenær á að stefna því? 2025, 2027 eða 2030? Eða á greining að vera bara viðvarandi?

Síðan kom vinna við farsældarlögin. Þar eru börn og ég spyr mig: Þau börn sem bíða núna, hversu lengi eiga þau að bíða þangað til vinna við farsældarlögin verður búin og það sem þar á að eiga sér stað fer skila sér til þeirra sem þurfa virkilega á því að halda í dag að eitthvað sé gert núna, ekki á morgun, ekki eftir ár, heldur núna?