154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og við getum verið sammála um að það er bara flott að útrýma fátækt. Það er það sem við eigum að stefna að. Ég vildi að við gætum það og við getum það. Við gætum gert það bara einn, tveir og þrír núna ef við myndum sameina alla krafta okkar og fara í það.

Menntakerfið, það er talað um að það sé jú gott að börn í menntakerfinu verði ekki vör við að þau búi við fátækt og ég get ekki annað en verið innilega sammála, bæði því og líka varðandi ókeypis máltíðir og annað. En það er bara ekki nóg. Þegar þau koma heim þá lifir fjölskyldan þar við viðvarandi fátækt. Það þýðir að jú, tómstundir og skemmtanir eru ekki á boðstólum. Þótt það séu styrkir — æ, mér er illa við styrkjakerfið að mörgu leyti. Ég vil að fólk fái fjármuni til að velja. Jú, það er sagt að tómstundastyrkir, að fátæk börn geti sótt um þá til að þau komist í tómstundir og íþróttir og ýmislegt. En væri ekki miklu nær að reikna út lágmarksframfærslu, reikna út hvað fjölskylda þarf til að lifa af og hún geti þá veitt börnum sínum og valið bara sjálf og borgað fyrir þessa tómstundir og skemmtanir, alveg eins og þeir sem eru efnameiri gera? Er það ekki eðlilegra heldur en alltaf að vera að búa til einhverja plástra til þess að reyna að hjálpa einhverjum? En þá þarf viðkomandi að leita eftir því að fá slíkt. Það er ekki gaman. Þetta er eins og leita eftir að fara í röð eftir mat. Það á ekki að vera svona kerfi. Við eigum að vera með kerfi. Er hv. þingmaður ekki sammála því að við eigum að vera með kerfi þar sem fólk fær laun til að geta valið sjálft fyrir sig og sín börn?