144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:02]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, við stjórnum því svo sem ekki hvernig meiri hlutinn lítur á þetta mál. Í því eru endalausir óvissuþættir eins og í þessari áætlun þar sem talað er um 3% vöxt af S-merktum lyfjum. Ég meina, ég veit ekki — er það þá bara þannig að það má ekki fara umfram þessi 3%? Það er ekki raunhæft. Við vitum það alveg. Er ráðherra bundinn af því þannig að við munum ekki fara yfir þessi 3%?

Það eru engin áform í rauninni um byggingu Landspítala. Það er allt í lausu lofti. Það virðist ekki eiga að fara í nein áform hvað það varðar nema hönnun á meðferðarkjarna. Það virðist ekki eiga að fara að byggja hann á næstunni. Sama með aðrar fjárfestingar.

Afnám fjármagnshafta hefur náttúrlega verið óvissuþáttur mjög lengi. Ég mundi segja að það væri enn óvissa í kringum það og verður þangað til við sjáum hvernig leysist úr þessu.

Ég veit ekki hvort það má taka þetta aftur inn í nefnd og koma með þessa áætlun aftur, hvort megi fresta henni fram á haust. Ég bara átta mig ekki alveg á því hvernig vinnulagið er. Það sem við getum gert er að koma okkar gagnrýni á framfæri og kalla eftir því að framsögumaður meiri hlutans komi hingað og standi fyrir máli sínu.

Eitt sem var ekki gott í þessu máli var að við fengum fund með fjármálaráðuneytinu áður en málið var flutt í þingsal. Síðan var svo mikil vinna við önnur mál að við í rauninni náðum ekki í fjármálaráðuneytið eftir það fyrr en við fengum loksins hæstv. fjármálaráðherra sem var mjög mikilvægt og mjög gott en það var svolítið seint. Vinnan við þetta varð meiri en við héldum. Það vöknuðu ýmsar spurningar sem við áttuðum okkur ekki á fyrr en við fórum að ræða málið.

Ég hefði viljað að þetta hefði verið tekið fastari tökum. Það hefði verið mjög gott ef málið hefði farið í umsagnarferli. En hvort við tökum þetta aftur inn í nefnd á þessum tímapunkti veit ég ekki. Meiri hlutinn verður auðvitað að vilja breyta þingsályktunartillögunni sinni. Það er það sem við reyndum að fá hann til að gera en tókst ekki.