150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er alls ekki á hverjum degi sem Alþingi fær til umfjöllunar ríkisábyrgð á einkafyrirtæki. Ég setti fram mínar skoðanir um ríkisaðstoð við Icelandair hér við 1. umr. og talaði þá um að skilyrðin þyrftu að vera mun skýrari fyrir ríkisábyrgðinni, að ég teldi að ríkið þyrfti frekar að eignast hlut í félaginu í staðinn fyrir ríkisábyrgð líkt og fjölmargar evrópskar ríkisstjórnir hafa gert, bæði til að tryggja betur almannahag með ríkisábyrgð á almannafé og til að mögulegur ávinningur við endurreisn félagsins falli almenningi í skaut. Ég er samt fegin að sjá að hv. fjárlaganefnd hafi breytt skilmálunum fyrir ríkisábyrgð á lánalínunni á þann veg að nú er ekki hægt að nota hana í rekstur dótturfélaga heldur eingöngu til að styðja við flugrekstur félagsins til og frá landinu. Það er mjög til bóta þó að mun lengra hefði mátt ganga að mínu mati í skilyrðum fyrir ríkisábyrgðinni, sérstaklega grænum skilyrðum og um starfshætti.

Herra forseti. Ég mun styðja þetta mál þar sem störf sem tengjast starfsemi Icelandair hlaupa á mörgum hundruðum og bein afleidd störf má telja í þúsundum. Við þurfum á störfum að halda við þær aðstæður sem ríkja (Forseti hringir.) og blasa við okkur núna í íslensku samfélagi. Það er því hagur ríkisins og samfélagsins að leggja til stuðning(Forseti hringir.) á þessum tímum atvinnuleysis og óvissu í atvinnumálum.