150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann kom inn á fjölmörg atriði sem við ræddum á vettvangi nefndarinnar. Hv. þingmaður segir að það sé ekki ætlan hans eða flokks hans að koma í veg fyrir aðstoðina og telur að íslenskir hagsmunir séu gríðarlegir í þessu. Það er auðvitað alltaf mjög mikilvægt í máli sem þessu og öðrum viðlíka málum að skoða áhættuna af slíkum gerningi og takmarka hana fyrir almenning og ríkissjóð. Ég vil spyrja út í þá hugmynd að taka veð í hlutafé og svo sé það bara hluthafanna að meta hvort þeir sætti sig við það, eins og ég skildi hv. þingmann. Ég spyr: Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að það hafi á fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins?