150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:28]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Þótt erindi mitt í stjórnmálum lúti að markaðslausnum í efnahagslífinu en ekki ríkisforsjá, og að einkarekstri en ekki samkeppnisrekstri, ætla ég ekki að útiloka það að komið geti til þess að skattgreiðendur verði beðnir um að hlaupa undir bagga með einkafyrirtækjum, ekki síst í ástandi eins og við búum við nú um stundir. Hins vegar ber á það að líta að hluti þess ástands sem nú ríkir er að nokkru leyti til kominn vegna aðgerða stjórnvalda sjálfra, aðgerða sem eru langt umfram tilefni. Nefni ég þar lokun landamæra hér síðustu vikurnar sem hafa gjörsamlega kippt fótunum undan rekstri Icelandair og annarra flugfélaga sem hingað vilja fljúga eða vilja starfa hér. Ég hefði talið miklu nær að stjórnvöld einhentu sér í það að aflétta þessum lokunum og þessum aðgerðum og renna stoðum undir líflegan rekstur flugfélaga hér á landi (Forseti hringir.) í stað þessa. Það er ekki hlutverk ríkisins að velja hvaða flugfélög lifa eða hvaða flugfélög komast hér á legg, ekki frekar en önnur fyrirtæki. Þess vegna segi ég nei. (Forseti hringir.)

En ég vil nefna það að ég óska þess að villtustu draumar stjórnarandstöðunnar rætist og það verði myljandi gróði hjá Icelandair á næstu misserum.