138. löggjafarþing — 142. fundur,  15. júní 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009--2012.

582. mál
[15:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þakka þetta andsvar frá hv. þm. Önnu Margréti Guðjónsdóttur. Ég tek fyllilega undir sjónarmið hennar í þessu efni og tel að stærsta verstöð landsins, Vestmannaeyjar, eigi einmitt þetta skilið. Ég ítreka hins vegar að hafi ég yfirleitt kjördæmapotast í ræðu minni þá hef ég potast fyrir öll kjördæmi landsins í því máli sem ég hef lagt fram í pontu Alþingis. Ég hef nefnt mikilvæg vegamál fyrir Vestfirðinga, Norðlendinga, Austfirðinga, Sunnlendinga og höfuðborgarsvæðið og hef því potast mjög víða ef á annað borð á að tala um kjördæmapot í þeim efnum.

Ég hlýt að taka undir orð hv. þingmanns um möguleika okkar með inngöngu í Evrópusambandið þegar kemur að samgöngumálum. Dæmin sanna að Evrópusambandið hefur unnið gríðarlega gott verk í samgöngumálum mjög víða í aðildarríkjum sínum. Nægir þar að nefna hin svokölluðu jaðarsvæði. Írland er kannski eitt besta dæmið þar sem Evrópusambandið kom því landi mjög til hjálpar hvað varðar stoðbrautir. Þar voru styttir vegir fyrir flutning varnings milli svæða til að koma til móts við umhverfissjónarmið. Írar bjuggu lengi vel við svipað vegakerfi og við Íslendingar þar sem keyrt var með ströndum eins og árabátarnir fóru til sjós á árum áður. Þar vantaði því stoðbrautir til að tengja byggðasvæðin, krossa landið. Það hefur verið gert á undanförnum árum í nafni umhverfisverndar og reyndar er nú svo að vegum víða í Evrópu er skipt í tvennt, annars vegar flutningsvegi og hins vegar ferðaþjónustuvegi. Það er kannski nokkuð sem við þurfum að horfa til þegar við verðum komin í Evrópusambandið. (Gripið fram í.)