138. löggjafarþing — 144. fundur,  16. júní 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

663. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka tækifærið til þess að fá að segja nokkur orð hér í lokin og vil nýta það tækifæri til að þakka þeim tveimur þingmönnum sem hér gerðu stuttar athugasemdir, hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Ég get raunar tekið undir hvert orð sem þeir sögðu og mér finnst það boða gott með það sem koma skal hvað varðar samvinnu hér í þinginu. Þessir þingmenn eru úr öðrum flokkum en ég, annar til hægri við mig en hinn til vinstri, en að mínu mati eru þetta mjög góðir þingmenn, báðir tveir, og gott að hafa slíka þingmenn hér í þinginu, þótt þeir hafi dálítið aðra nálgun á pólitíkina. Mér sýnist á öllu að hvað sem líður hægri, vinstri og miðju sé hér fólk sem geti unnið saman að lausn mála. Ekki var heldur verra að þeir gátu notað tækifærið til þess að fara yfir þau miklu tíðindi sem eru að verða, annars vegar stöðugleikasáttmálann og svo upplýsti hv. þm. Ögmundur Jónasson um stórfrétt sem ég hafði ekki heyrt áður, hvernig það kom til í ráðherrabústaðnum árið 2008 að boðið var upp á samninga á afar sérstökum forsendum.

Enn og aftur þakka ég jákvæð orð og heiti því að vinna með þessum þingmönnum og öðrum að því að ná markmiðum þeirrar tillögu sem hér er mælt fyrir og að ná samstöðu um þessi gríðarlega brýnu úrlausnarefni. Ég efast ekki um að meðlimir efnahags- og skattanefndar, sem mun hafa þetta mál til meðferðar í sumar, muni geta unnið saman að því að skila góðri niðurstöðu, öllum til heilla.