138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

umboðsmaður skuldara.

562. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir framhaldsnefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og fengið á sinn fund Markús Sigurbjörnsson, formann réttarfarsnefndar. Þau atriði sem hlutu hvað mesta umfjöllun í nefndinni að þessu sinni voru m.a. upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara, fjármögnun umboðsmanns skuldara á yfirstandandi ári og ráðning starfsfólks og skipun umboðsmanns.

Skerpt var á skilgreiningu og hlutverki umboðsmanns skuldara þegar kemur að framkvæmd greiðsluaðlögunar og hún gerð nákvæmari þar sem hann skal í reynd veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun og leggur nefndin til breytingu því til samræmis. Í f-lið 1. gr. er svo kveðið á um að umsjónarmaður skuldara veiti skuldurum aðstoð þegar við á og í því felst m.a. aðstoð sem umboðsmanni er skylt að veita við greiðsluaðlögun.

Rætt var sérstaklega um störf umsjónarmanna og kostnað við störf þeirra en skv. 2. gr. frumvarpsins er umboðsmanni skuldara heimilt að gera þjónustusamning við utanaðkomandi aðila um vinnslu mála fyrir stofnunina. Nefndin telur rétt að settar verði skýrar reglur um greiðslur vegna slíkra samninga og leggur því til að bætt verði við ákvæðið reglugerðarheimild þess efnis.

Á þingskjali 1367 lagði nefndin til breytingar sem miðuðu að því að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga umboðsmanns skuldara, sem og starfsfólks hans og þeirra utanaðkomandi aðila sem hann gerir þjónustusamning við, fullnægi skilyrðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Lagði nefndin m.a. til að bætt yrði við ákvæði um að upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara væri háð því skilyrði að hún væri nauðsynleg og í samræmi við samþykki skuldarans fyrir vinnslunni og að fylgt væri ákvæðum 21. gr. laganna sem kveður á um fræðsluskyldu ábyrgðaraðila, í þessu tilfelli umboðsmanns skuldara, þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en hinum skráða, þ.e. skuldara. Nefndin telur vert að árétta mikilvægi þess að við upplýsingaöflun sé gætt ákvæða laganna og að umboðsmaður skuldara sem ábyrgðaraðili láti skuldara vita þegar upplýsinga er aflað og veiti honum lögbundna fræðslu þar um.

Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um kostnað við rekstur embættis umboðsmanns skuldara. Nefndin leggur til smávægilega breytingu á 3. mgr. ákvæðisins til að gera textann skýrari.

Nefndin ræddi að nýju nokkuð um starfsmannamál Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og umboðsmanns skuldara. Ráðgjafarstofan hefur nokkra sérstöðu þar sem hún starfar ekki á lögformlegum grunni heldur á grundvelli samnings sem ekki er runninn út. Af þessum sökum verður stofan ekki lögð niður með lögum en mikilvægt er að gæta þess að þeir opinberu starfsmenn sem hjá henni starfa hljóti ekki samtímis laun á uppsagnarfresti og laun sem starfsmenn umboðsmanns skuldara. Telur nefndin mikilvægt að gætt verði að þessu atriði við ráðningar starfsmanna til hinnar nýju stofnunar. Þá áréttar nefndin að um skipan umboðsmanns skuldara gilda lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og verður staða umboðsmanns skuldara því auglýst sérstaklega áður en ráðherra skipar hann í samræmi við frumvarpið.

Í ákvæði til bráðabirgða III er lagt til að miða skuli útreikning á kostnaði og greiðslu við rekstur umboðsmanns skuldara fyrir árið 2010 við áætlun sem umboðsmaður skuldara gerir eins fljótt og auðið er eftir að lögin eru samþykkt. Þar sem auglýsa þarf stöðu umboðsmanns skuldara og því ljóst að hann tekur ekki strax til starfa telur nefndin rétt að starfshópur sá sem undirbýr gildistöku laganna og er umboðsmanni skuldara til ráðgjafar um starfsemi stofnunarinnar fyrsta starfsárið geri drög að fjárhagsáætlun fyrir árið 2010.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum.

Undir þetta framhaldsnefndarálit skrifa auk þeirrar sem hér stendur Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Pétur H. Blöndal, Ásmundur Einar Daðason og Ögmundur Jónasson.

Mig langar, frú forseti, áður en ég lýk máli mínu alveg í þessum ræðustól, því að þetta er síðasta málið á vegum félags- og tryggingamálanefndar sem við tökum fyrir í dag, að koma inn á nokkur atriði sem þingmenn töluðu um, um vinnulag þingsins og hvernig við vinnum saman hér innan húss.

Þá langar mig líka til að árétta þær þakkir sem ég færði þegar ég talaði fyrir fyrsta máli okkar hér í dag, þakkir enn og aftur til formanns réttarfarsnefndar, hjartans þakkir til starfsfólks nefndasviðs og ritara nefndarinnar sem hefur ekki bara í þessu máli heldur vikum og mánuðum saman starfað undir gríðarlegu álagi sem er í raun ekki boðlegt.

Hvað varðar umboðsmann skuldara, bara svo að ég haldi því aðeins til haga, hvernig kemur það í raun til? Jú, það var nefnilega þannig að félags- og tryggingamálanefnd, eins og ég nefndi reyndar hér fyrr í dag í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar, fékk hér síðla hausts frumvarp frá hæstv. félagsmálaráðherra, frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Hvað hafði félags- og tryggingamálanefnd mikinn tíma í raun til að fara yfir þetta frumvarp og gera á því breytingar, tryggja að málsmeðferðin væri vönduð? Við höfðum u.þ.b. fimm daga, þ.e. við vorum sett í þá stöðu að ef við ekki samþykktum það með svo skjótum hætti mundi fjöldi fólks missa af þessu úrræði rétt fyrir jól og yrði að bíða í meira en mánuð eða leggja allt kapp á að vinna nótt og dag við að gera allt sem við gætum til þess að gera það betur úr garði og koma að sjónarmiðum okkar og umbótum á því og við völdum það. Við völdum þá leið að taka þessa einu viku, leggja nótt við dag öll saman, setja nefndasvið á hvolf enn einu sinni og starfsfólk þingsins við að reyna að sinna þeirri skyldu okkar sem löggjafi og Alþingi að vanda til verka við löggjöfina. Þar vorum við sett í þá stöðu af framkvæmdarvaldinu sem Alþingi er iðulega sett í og því verður að linna.

Það gengur ekki að framkvæmdarvaldið láti fossa hér inn tugi frumvarpa á síðustu stundu, jafnvel löngu eftir að frestur til að senda inn frumvörp er liðinn, þá eru gerð afbrigði og undantekningar. Hér eigi síðan allir að vera á hlaupabretti frá morgni til kvölds, og starfsfólk þingsins, sem er framúrskarandi og frábært eins og við höfum öll reynslu af, sé hér vansvefta að hjálpa okkur. Til hvers? Jú, einmitt vegna þess að við erum, held ég, flest samviskusöm og viljum gera hlutina vel eins og við höfum reynt að gera í þessum málum. En rót vandans er m.a. sú — það eru ýmsar rætur þarna — að Alþingi er allt of veikburða gagnvart framkvæmdarvaldinu og því verður að setja því skorður að hér komi inn tugir frumvarpa sem við fáum lítinn tíma til að vinna úr.

Rétt eins og í haust tók félags- og tryggingamálanefnd málin í sínar hendur og gerði aftur undir tímapressu — ekki eins mikilli og í haust en samt undir tímapressu — allt sem hún gat til þess að koma sér saman og vinna sameiginlega að því að bæta þau frumvörp sem við höfum hér mælt fyrir í dag.

Hvers vegna nefni ég haustið líka? Jú, vegna þess að síðasta haust, þegar félags- og tryggingamálanefnd hafði þennan stutta tíma, lögðum við einmitt til í ítarlegu nefndaráliti — ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talaði um þverpólitískt samstarf. Sumir vildu meina að stjórnvöld væru að segja að þessi löggjöf sem þarna væri komin væri endapunktur, ekki yrði um fleiri úrræði á skuldavanda heimilanna að ræða.

Nefndin sameinaðist um að segja nei við þessu og talaði um að þetta væri lifandi löggjöf sem við ætluðum að fylgjast með. Við beindum því til hæstv. ráðherra að setja á stofn þverpólitískan starfshóp sem héldi áfram að vinna með málið, fylgjast með framkvæmd laganna og hvar ætti að gera úrbætur. Eitt atriði sem nefndin tiltók í nefndaráliti sínu og vinnu var að skoða ætti sérstaklega að koma á fót embætti umboðsmanns skuldara. Þetta er því í raun og sann afurð félags- og tryggingamálanefndar þótt hugmyndin hafi að sjálfsögðu verið í umræðunni í langan tíma, þannig að, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom einnig að, við getum líka verið stolt yfir því hvernig við höfum reynt að vinna.

Án efa mun ýmislegt koma í ljós í þessu frumvörpum sem við erum að vinna að að afgreiða hér í dag sem betur má fara þannig að við þurfum áfram að vera vakandi og lifandi í vinnu okkar áfram.

Þar sem ég stend hér væntanlega í síðasta sinn um þó nokkurt skeið í þessum ræðustól Alþingis, ef guð lofar verð ég hér ekki í haust og jafnvel ekki fram á vetur, vil ég taka undir það sem fjölmargir hafa sagt um að við verðum að taka höndum saman um að bæta vinnulag þingsins og gera það sameiginlega, setja verklagsreglur. Hluti af því er, eins og ég sagði líka, að halda til haga því góða sem hér er gert, þeim stundum þegar þingmenn taka sig saman og vinna þverpólitískt og faglega og leggja nótt við dag ásamt starfsmönnum þingsins. Hluti af því að bæta það er þá líka að setja skorður við framkvæmdarvaldinu og tryggja að Alþingi fái tíma, svigrúm og sjálfstæði til að vinna hér að málum eins og við viljum að gert sé og sé í raun og sann sjálfstæð stofnun. Þá erum við stjórnarliðar ekki óþekktarormar eða villikettir að tala um slíkt heldur sinnum við öll sem þingmenn þeirri skyldu okkar gagnvart almenningi og gagnvart því starfi sem við sinnum í þessari stofnun, að benda á þennan þátt vandans og taka höndum saman um að laga hann.

Að lokum, frú forseti, er ég virkilega ánægð með að þessi frumvörp séu hér fram komin og þakka enn og aftur því góða nefndarfólki sem unnið hefur í félags- og tryggingamálanefnd og öllum þeim sem komið hafa að málinu, og við höldum áfram að fylgjast með.