138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

fundarstjórn.

[14:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er auðvitað alrangt hjá hv. þingmanni. Við höfum bara komið því á framfæri skýrt og skilmerkilega að hægt sé að fara þá leið að flýta þessum málum sem eru í undirrétti án þess að gripið sé til einhverra sérstakrar lagasetningar og það flýtir meira að segja frekar fyrir málinu. Það hefur verið kannað í dómskerfinu. Dómsmálaráðuneytið hefur kannað þetta og það hefur komið fram hjá dómsmálaráðherra. Ég skil ekki svona málflutning.

Ég ætla líka að víkja orðum mínum að hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún fer með kolrangt mál. Hún segir að ég sé að skipa rannsóknarnefnd Alþingis fyrir. Ég frábið mér slíkan málflutning. Ég get haft skoðun á því að það eigi að rannsaka einkavæðingu bankanna frekar en gert hefur verið en ég var ekki að skipa rannsóknarnefndinni fyrir með neinum hætti. Ég sagðist ætla að bíða niðurstöðu hennar og sjá hver hún væri en ég má auðvitað hafa sjálfstæða skoðun á því hvort ég telji að þurfi að rannsaka einkavæðinguna betur en gert hefur verið, ég tel að hún sé undirrót að hruninu og það er ekkert skrýtið þó að hv. framsóknarmenn og sjálfstæðismenn verði órólegir þegar … (Forseti hringir.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)