145. löggjafarþing — 148. fundur,  7. sept. 2016.

fullgilding Parísarsamningsins.

858. mál
[16:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka aftur fyrirspurnina. Ég er sammála því að við Íslendingar erum í mjög góðri aðstöðu til að leggja okkar af mörkum. Við höfum rafmagnið okkar og hita sem á uppruna í nærri því 100% endurnýjanlegri orku. Þar erum við að leggja okkar af mörkum. Svo eru eins og ég nefndi áðan ýmis tækifæri í sóknaráætlun stjórnvalda sem var einmitt samþykkt í aðdraganda Parísarsamningsins. Eitt af því sem mig langar til að nefna aftur og tilgreina er að það eru auðvitað fjármögnuð verkefni sem lúta að auknum framlögum til skógræktar, landgræðslu, endurheimtar votlendis og svo eru aðgerðir sem lúta að innviðum er tengjast rafbílum og samvinnu við sjávarútveg og landbúnað um minnkun losunar.

Ég held að við þurfum að vinna að þessu áfram. Við setjum aukin framlög í Græna loftslagssjóðinn og viljum vera mjög framarlega á þessu sviði. Þátttaka okkar á Parísarfundinum ber þess klárlega merki. Svo megum við heldur ekki gleyma því að núna lagði iðnaðar- og viðskiptaráðherra fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti þar sem kveðið er á um ýmis töluleg markmið, t.d. að hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrir samgöngur á landinu verði komið í 30% árið 2030 og haftengd starfsemi í 10%. Ég held að það að setja svona markmið eins og við erum að gera muni skila okkur mjög miklu. Með því að setja þetta fram er líka hægt að hafa með því ákveðið eftirlit.

En ég er sammála þingmanninum. Við eigum alltaf að vera mjög metnaðarfull í þessum málaflokki.