133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:53]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa hafa sagt í dag að mikilvægt sé að ræða málefni og aðstæður heilabilaðra í samfélaginu. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði áðan að það er einmitt afar brýnt að við tökum höndum saman um að færa þessi mál til betri vegar.

Ég vil draga það fram í umræðunni að ég tel að á undanförnum árum hafi forgangsröðun stjórnvalda hvað varðar málefni aldraðra beinst mjög að þessum hópi. Þar með er ekki sagt að við höfum náð þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Það kom glöggt fram í svörum ráðherra að þessi mál eru í forgangi á hennar borði um leið og hún taldi upp þau verkefni sem fram undan eru.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara gengur einmitt mikið út á þjónustuþáttinn, að við gerum bragarbót á þjónustunni, og ég tel brýnt að draga það fram hér.

Ég tel afar mikilvægt að við höldum áfram á þeirri braut sem hæstv. heilbrigðisráðherra er, þ.e. að við verðum að efla áfram heimahjúkrunina, við verðum að fjölga dagvistarúrræðunum, fjölga rýmum fyrir hvíldarinnlagnir og sérhæfðum rýmum á hjúkrunarheimilum. Ég tel líka mikilvægt að efla grunnþjónustuna og ekki síður fagfólkið í grunnþjónustunni um land allt til að gera því kleift að sinna betur þjónustunni við þennan hóp heima í héraði og styðja um leið fjölskyldur og aðstandendur í hlutverki þeirra. Það gleðilega er, frú forseti, að í sífellt meira mæli er verið að horfa á hagsmuni fjölskyldunnar og aðstandenda og draga fram mikilvægi þess að við styðjum við þá í verkum þeirra.

Því fagna ég mjög orðum ráðherra þegar hún talaði um að hún vildi auka veg og starfsemi minnismóttökunnar á Landakoti sem ég tel að geti, ásamt aukinni upplýsingagjöf og ráðgjöf, orðið mikil lyftistöng í þjónustu við heilabilaða.