143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

áætlanir um fækkun sjúkrabifreiða.

[15:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fór yfir söguna allt aftur til 2008 og nefndi líka tillögurnar sem komu 2011 frá fyrirtækinu sem fór í gegnum málið. Einn af níu starfshópum var sá sem fjallaði um sjúkrabílana. Hvort sem hæstv. ráðherra líkar það betur eða verr er núna verið að taka ákvörðun um að hrinda þessum tillögum í framkvæmd. Ég fagna því hins vegar mjög sem komið hefur fram hjá ráðherra bæði í svörum við mig og í öðrum svörum áðan að hann ætli að fara í gegnum þetta. Ég þykist vita að hæstv. ráðherra þekki það vel til á þeim svæðum sem er verið að leggja til að skera niður núna að það komi ekki til greina. Við tókum dæmi frá Raufarhöfn.

Þetta er fullkomlega galið. Það má spyrja sig hverjir skipi þessa vinnuhópa og hvort fyrirtæki í Boston sé best til þess fallið að segja okkur hvernig við ætlum að hafa sjúkrabílaþjónustu á landsbyggðinni þegar við erum búin að skera eins mikið niður í heilbrigðismálum og við höfum gert (Forseti hringir.) þar sem við erum að færa þættina til stóru spítalanna.