137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

Icesave-reikningarnir.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hafa nú um nokkra hríð staðið yfir samningaviðræður milli íslenskra stjórnvalda og Hollendinga og Breta. Samninganefndinni stýrir Svavar Gestsson sendiherra. Þetta eru auðvitað erfiðir samningar eins og allir vita og það er stórmál í húfi fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar og mikilvægt að þarna takist vel til.

Ég hef fylgst nokkuð með þessum samningaviðræðum á ýmsum stigum málsins og ég hygg að menn séu að nálgast hver annan. Að uppi séu hugmyndir sem menn vilja að minnsta kosti ræða og ég met svo að séu þess eðlis að við eigum að skoða hvort við erum komin nálægt því að ná eins viðunandi samningum fyrir Ísland og kostur er.

Ég held að það sé alveg öruggt að náist slíkir samningar gæti verið að til þyrfti að koma ákveðin ríkisábyrgð þar. Þá yrði hún örugglega lögð fyrir þingið til umfjöllunar og afgreiðslu. En með einum eða öðrum hætti kemst niðurstaða í slíka samninga og þá verða þeir að sjálfsögðu ræddir í ríkisstjórn.

Varðandi heildarskuldbindingar er ég ekki alveg með þá tölu á hreinu en ég hygg að við séum að ræða þar um 630 milljarða brúttó. En við verðum líka að taka með í reikninginn, út af falli Landsbankans, að það féllu líka miklar skuldir á Hollendinga og Breta og þar erum við e.t.v. að ræða um 1.200 milljarða kr.